Ræddu veiðigjöldin í tæpa níu tíma

mbl.is/Eggert

Tekist var á um frumvarp ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld á Alþingi í hátt í níu klukkustundir í gær en byrjað var að ræða málið klukkan rúmlega tvö og stóð umræðan þar til skömmu fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi þegar atkvæðagreiðslu eftir aðra umræðu var frestað. Ekki liggur fyrir hvenær atkvæðagreiðslan fer fram.

Gert hafði verið ráð fyrir því að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mælti fyrir nokkrum þingsályktunartillögum vegna EES-gerða en þegar til kom var ráðherrann upptekinn við að veita breska ríkisútvarpinu BBC viðtal og gerði Jón Steindór Valdimarsson, þingflokksformaður Viðreisnar, athugasemd við það og þótti það lítilsvirðing við tíma þingmanna. Fór hann fram á það að ef ráðherrann kæmi ekki í þingsalinn innan fárra mínútna yrði fundinum slitið.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði Jóni Steindóri og sagði að ýmsar breytingar hefði verið gerðar á dagskránni. Benti hann á að látið hefði verið vita fyrr um kvöldið að utanríkisráðherra yrði í viðtalinu á tilteknum tíma. Guðlaugur Þór mætti nokkrum mínútum síðar í þingsalinn og mælti fyrir umræddum EES-málum.

mbl.is