Það vakti athygli Djúpavogsbúa þegar brunnskipið norska, Lady Anne Marie frá Álasundi, sigldi inn til hafnar þar í síðustu viku til að kanna aðstæður vegna verkefnisins sem það hefur verið fengið til, að flytja sláturfisk úr kvíum Laxa fiskeldis í Reyðarfirði til sláturhúss Búlandstinds á Djúpavogi. Fjöldi fólks leit við til að sjá þetta nýja og glæsilega skip.
Skipið liggur við bryggju framan við Búlandstind og dælir laxi inn í vinnsluna eftir því sem hún tekur við. Laxinum er sömuleiðis dælt úr kvíunum í tvo tanka skipsins. Þeir taka samtals 180 tonn sem svarar til 360 þúsund 5 kílóa laxa. Vel fer um laxinn í tönkum skipsins enda er öllum umhverfisaðstæðum stjórnað úr brúnni, og því tekur skipið skammta sem henta vinnslunni og útflutningi á hverjum tíma, ýmist til eins, tveggja eða jafnvel þriggja daga.
Aðeins er um mánuður frá því norska fyrirtækið Hofseth International tók skipið í notkun og verkefnin fyrir Laxa eru fyrstu alvöru verkefnin sem það fer í. Laxar fiskeldi tók það á leigu til að flytja seiði í stöð sína í Reyðarfirði og flytja lax til slátrunar.
Andreas Berg skipstjóri segir að skipið sé búið besta tækjabúnaði sem þekkist, meðal annars til að stýra aðstæðum í fiskitönkunum. Áhersla sé á velferð fisksins, að hann skaddist ekki og sjúkdómar berist ekki á milli.