Embættisskylda að senda málið áfram

Már segist geta stutt mál sitt með þeim upplýsingum sem …
Már segist geta stutt mál sitt með þeim upplýsingum sem fram koma í yfirlýsingunni. mbl.is/Hari

Már Guðmunds­son seðlabanka­stjóri seg­ist hafa rætt við Þor­stein Má Bald­vins­son, for­stjóra Sam­herja, í síma sum­arið 2012 og þá hafi talið borist að því að svo­kallað Sam­herja­mál yrði sett í sátta­ferli. Það hefði þá falið í sér ein­hverj­ar breyt­ing­ar á fyr­ir­komu­lagi og verklagi hjá Sam­herja sem sköpuðu traust á því að gjald­eyr­is­skil fyr­ir­tæk­is­ins væru í lagi.

Þetta kem­ur fram í yf­ir­lýs­ingu sem seðlabanka­stjóri sendi frá sér í dag, en þar skýr­ir hann bet­ur um­mæli sem hann lét falla í viðtöl­um við fjöl­miðla 25. nóv­em­ber. Þor­steinn Már hef­ur hins veg­ar látið hafa eft­ir sér að hann ef­ist um að Már hafi raun­veru­lega viljað fara með málið í sátta­ferli.

Hæstirétt­ur kvað upp dóm í máli Seðlabank­ans gegn Sam­herja 8. nóvem­ber síðastliðinn. Þar var staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykja­vík­ur um að fella úr gildi ákvörðun bank­ans frá 1. sept­em­ber 2016 um að Sam­herji skuli greiða 15 millj­ón­ir kr. í stjórn­valds­sekt til rík­is­sjóðs vegna brota á regl­um um gjald­eyr­is­mál.

Seg­ist geta stutt mál sitt með staðreynd­um upp­lýs­ing­um

Már ít­rek­ar í yf­ir­lýs­ingu sinni að það sé satt að hann hafi kannað mögu­leik­ann á sátta­ferli og hvort hægt væri að ljúka mál­inu þannig. Það hafi hins veg­ar komið í ljós að Seðlabank­inn hafi ekki haft heim­ild til að setja málið í sátta­ferli eins og það lá fyr­ir, enda hafi það tal­ist vera meiri hátt­ar brot í skiln­ingi laga um gjald­eyr­is­mál. Hann hef­ur áður sagt að Seðlabank­an­um hafi borið að leggja fram kæru í mál­inu.

Seg­ist hann geta stutt mál sitt með þeim upp­lýs­ing­um sem komi fram í yf­ir­lýs­ing­unni.

„Þar er að hluta til stuðst við minni, m.a. þar sem ég tek ekki upp mín sím­töl enda er það ólög­legt án vit­und­ar gagnaðila, og tíma tók að draga sam­an og staðreyna upp­lýs­ing­ar,“ seg­ir Már.

Eft­ir að hafa rætt við Þor­stein Má í síma sum­arið 2012 seg­ist Már hafa beðið fram­kvæmda­stjóra gjald­eyris­eft­ir­lits­ins að kanna þenn­an mögu­leika. Aflað hafi verið lög­fræðiálits frá Gizuri Ber­steins­syni hæsta­rétt­ar­lög­manni um laga­heim­ild­ir Seðlabank­ans til þess að ljúka mál­um er varða brot­um um gjald­eyr­is­mál með sátt. Þar hafi komið fram að slík heim­ild sé til staðar en hún sé bund­in af því að ekki sé um meiri hátt­ar brot að ræða. Í slík­um til­fell­um beri að vísa mál­um til lög­reglu,

Til­kynnti Þor­steini niður­stöðuna í síma

„Á þess­um tíma var frum­rann­sókn Seðlabank­ans á Sam­herja­mál­inu ekki lokið. Þegar leið að því um vet­ur­inn fór ég aft­ur að biðja um at­hug­un á því að ljúka máli Sam­herja með sátt. Það varð til þess að ég átti fund með Gizuri Berg­steins­syni hrl. og fram­kvæmda­stjóra gjald­eyris­eft­ir­lits­ins til að fara yfir spurn­ing­una á ný með til­liti til þess lög­fræðiálits sem lá fyr­ir frá því í ág­úst 2012 og niðurstaðna frum­rann­sókn­ar­inn­ar.“

Seg­ir Már þann fund hafa verið hald­inn í mars eða snemma í apríl árið 2013.

„Eft­ir fund­inn var ljóst að Seðlabank­inn hafði ekki heim­ild­ir til að setja málið í sátta­ferli eins og það lá fyr­ir enda tald­ist málið þá vera meiri hátt­ar í skiln­ingi laga um gjald­eyr­is­mál. Þvert á móti var það bein­lín­is embætt­is­skylda mín eins og lög­in voru að senda málið áfram til sér­staks sak­sókn­ara. Ég til­kynnti Þor­steini Má í sím­tali þá niður­stöðu en við höfðum verið í síma­sam­bandi um stöðu máls­ins á fyrstu mánuðum árs­ins 2013.“

mbl.is