Eitthvað var um hávær skoðanaskipti og frammíköll á aðalfundi Sjómannafélags Íslands í gærkvöldi. Það hafi hinsvegar liðið hjá og fundarstörfum lokið með eðlilegum hætti, segir Bergur Þorkelsson, gjaldkeri félagsins, við mbl.is.
„Fundurinn var með hefðbundnu sniði í gær og það voru einhver skoðanaskipti þarna. Það kom fram á RÚV í gær að honum hefði verið slitið. Fundinum var ekki slitið, dagskráin var bara tæmd,“ segir Bergur.
Hann segir stjórnarkjöri þó ekki lokið þar sem kosning stendur yfir til 10. janúar. Gjaldkerinn leiðir eina listann í framboði til stjórnar félagsins og mun hann því vera sjálfkjörinn formaður félagsins, en stjórnarskipti munu ekki eiga sér stað fyrr en á næsta aðalfundi sem að venju er haldinn milli jóla og nýárs.
„Næsti aðalfundur er þá eftir ár. Þetta var bara venjulegur aðalfundur,“ segir Bergur og bætir við að sitjandi stjórn er kjörinn til fjögurra ára og hefur hún aðeins setið í þrjú ár. Helgi Kristinsson mun því starfa sem formaður félagsins í eitt ár að óbreyttu.
Helgi var kjörinn varaformaður félagsins þegar var kosið fyrir um þremur árum síðan og tók við starfi formanns eftir að Jónas Garðarsson ákvað að víkja úr embætti formanns.