Skýrsla um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða sem sjávarútvegsráðherra óskaði eftir, og átti að birta í október, mun verða birt á næstu dögum. Þetta staðfestir Oddgeir Ottesen hjá Hagfræðistofnun í samtali við mbl.is. Hann vill þó ekki gefa neitt út um ákveðnar dagsetningar.
Spurður hvers vegna skýrslan hefur tafist segir Oddgeir að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir einfaldri uppfærslu á fyrri skýrslum. Staðan hafi hins vegar verið sú að þegar tekið er tillit til fjölda nýrra gagna og upplýsinga verður verkefnið mun umfangsmeira en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Síðasta sumar lýsti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra því yfir að ný hvalveiðileyfi yrðu ekki gefin út fyrr en gerðar hafi verið úttektir á umhverfisáhrifum, dýraverndunarsjónarmiðum, samfélagslegum áhrifum hvalveiða, ásamt áhrifum hvalveiða á íslenskt efnahagslíf.