Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði stjórnmálaumræðu í tengslum við veggjöld komna á hvolf með tilliti til afstöðu Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks í útvarpsþættinum Þingvellir í dag. Drjúgur hluti þáttarins fór í umræðu um veggjöldin, en nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis ræddu málefnið. Auk Rósu voru gestir þáttarins Björn Leví Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
„Þessar tilraunir eru komnar frekar mikið á hvolf þegar þingmaður sjálfstæðismanna er að tala fyrir enn frekari skattlagningu og þingmaður Vinstri grænna segir fólki að róa sig í skattlagningunni. Þetta eru svolítið skrýtnir tímar,“ sagði hún. „Þetta er ekki annað en bein skattlagning á þá sem eru að keyra,“ bætti hún við.
„Það er ýmislegt sem mér finnst varhugavert í þessum tillögum sem þarna birtast. Í fyrsta lagi eru þær náttúrulega óútfærðar og óútræddar, bæði í nefndinni og í þinginu sjálfu,“ sagði hún og virtist af umræðunni sem margt væri óljóst af hennar hálfu um málið, en Rósa Björk tíundaði spurningar sem hún hafði um málið í blaðagrein yfir hátíðirnar.
„Á þetta að vera heill sjóður? Eigum við á höfuðborgarsvæðinu að borga vegskatt inn og út úr borginni, ekki samt í framkvæmdir sem eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu, heldur í einhvern almennan sjóð? Starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar hefur verið ansi digurbarkalegur í yfirlýsingum sínum. Hann hefur talað um gjaldið, krónutölurnar og stóran pott þaðan sem eiga að renna fjármunir í ýmsar framkvæmdir hingað og þangað um landið,“ sagði Rósa Björk.
„Við erum farin að tala um stórar hugmyndir. Glænýjar hugmyndir um fjármögnun á almennum samgönguframkvæmdum í landinu,“ sagði hún og vísaði til þess að t.d. í Vaðlaheiðargöngum og í Hvalfjarðargöngum væri aðeins um að ræða gjaldtöku í viðkomandi göngum og þar væri einnig val um aðra leið.
Rósa Björk nefndi einnig að ekki væri kveðið á um veggjöld í stjórnarsáttmálanum.
„Það er kveðið á um stórátak í samgöngumálunum, en ekki veggjöldin sem slík til að fjármagna það stórátak. Staða ríkissjóðs hefur ekki verið betri, hvorki frá hruni eða fyrir það. Við ættum aðeins að velta því fyrir okkur,“ sagði Rósa Björk og nefndi einnig að bæði Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn hefðu áður ályktað gegn veggjöldum. Þá sagði Rósa Björk að skattlagningin legðist þyngst á þá sem efnaminni væru og stórneytendur sem væru mestmegnis fyrirtæki fengju afslátt samkvæmt orðum Jóns Gunnarssonar, formanns nefndarinnar.