Um miðjan desember kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm yfir manni, sem gerðist sekur um ofbeldi í nánu sambandi. Hann var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og til þess að greiða fyrrverandi sambýliskonu sinni og barnsmóður 200.000 kr. í bætur.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa tekið um háls konunnar og snúið hana niður í götuna, með þeim afleiðingum að hún hlaut eymsli á hálsi, yfir kvið og um læri. Atvikið átti sér stað fyrir utan heimili konunnar í lok ágúst sl., en maðurinn og konan hafa átt í deilum vegna forsjár.
Engin vitni voru að atvikinu í heild, en dómnum þótti ekki sannað að maðurinn hefði tekið um háls konunnar. Hann neitaði því, en játaði að hafa „tekið um axlir hennar og lagt hana varlega niður á jörðina.“
Konan lýsti því þó sem svo að maðurinn hefði „tekið um háls hennar með annarri hendinni, því næst tekið um axlir hennar og snúið hana í jörðina,“ eins og segir í dómi héraðsdóms.