Útgerðarfélag Reykjavíkur mun senda erindi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, að líkindum á morgun, þar sem kærð verður ákvörðun Fiskistofu um að svipta fiskiskipið Kleifaberg leyfi til fiskveiða í tólf vikur.
Þetta segir Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri félagsins, í samtali við 200 mílur.
Ákvörðun Fiskistofu er reist á átta myndskeiðum frá árunum 2008, 2010 og 2016, sem þykja sýna brottkast fiskafla um borð í skipinu. Því hefur ÚR mótmælt og bent á að meint brot á fyrri árunum tveimur séu löngu fyrnd samkvæmt lögum, auk þess sem eitt myndskeiðanna hafi verið falsað. Auðvelt sé þá að eiga við og bjaga myndefni á öllum myndskeiðunum.
„Við erum mjög ósáttir við framgöngu Fiskistofu í þessu máli, og sú afstaða verður mjög skýr í kærunni,“ segir Runólfur. Svipting veiðileyfisins mun að óbreyttu taka gildi 4. febrúar.