Málið „satt að segja óhugnanlegt“

Starfsmenn sérstaks saksóknara bera kassa inn í höfuðstöðvar Samherja á …
Starfsmenn sérstaks saksóknara bera kassa inn í höfuðstöðvar Samherja á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Auðvitað höfðu hvorki Vinnslustöðin né Samherji brotið lög um gjaldeyrisskil. Það vissi sérstakur saksóknari og það vissi meira að segja fjöldi starfsmanna í Seðlabankanum sjálfum. Seðlabankastjórinn lét sér samt ekki segjast og stóð að lokum uppi klæðalaus í Hæstarétti.“

Þetta segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, um málarekstur Seðlabanka Íslands á hendur Vinnslustöðinni og Samherja vegna gruns um brot á reglum um gjaldeyrisskil.

Birtist viðtal við hann á vef útgerðarinnar á föstudag, þar sem bent er á að málarekstur Seðlabankans gegn Samherja hafi staðið árum saman, og lokið með því að æðsti dómstóll landsins staðfesti fullkomlega sjónarmið Samherja.

„Eftir stóð Seðlabankastjórinn enn naktari og vandræðalegri en keisarinn klæðalausi í ævintýri H. C. Andersen.“

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.

„Nú skyldi sýna andskotans sægreifaliðinu“

Binni segir Seðlabankann hafa ráðist inn í aðalstöðvar Samherja, „með fulltingi ríkisstjórnar Jóhönnu [Sigurðardóttur] og Steingríms J. [Sigfússonar] og hafði áður undirbúið og fóðrað Helga Seljan í Kastljósi RÚV sem málpípu sína og ríkisstjórnarinnar.“

Innrás þessi hafi þá átt sér stað sólarhring eftir að ríkisstjórnin lagði frumvörp um veiðigjöld fram á Alþingi og myndað í leiðinni þrenningu með Seðlabankanum og fjórum þáttum í Kastljósi, „í þeim tilgangi að þyrla upp sem mestu moldviðri og koma höggi á sjávarútvegsfyrirtækin,“ þar sem Samherji og Vinnslustöðin hafi verið sérstaklega tekin fyrir.

„Nú skyldi sýna andskotans sægreifaliðinu í tvo heimana fyrir að voga sér að andæfa veiðigjöldum,“ segir Binni.

„Löngu síðar kom á daginn að Seðlabankinn hafði líka vegið að Vinnslustöðinni úr launsátri vegna meintra brota á gjaldeyrislögum, bæði rannsakað starfsemi fyrirtækisins án þess að við vissum af því og leitað upplýsinga hjá okkur til að nota gegn Samherja án þess að við gerðum okkur grein fyrir því. Sjálfur hafði ég stöðu grunaðs manns og öll stjórn Vinnslustöðvarinnar sömuleiðis fram í mars 2014 eða í þrjú ár samfleytt án þess að hafa hugmynd um það.“

Vonandi verði spilin lögð á borðið

Hann segir að vitaskuld hafi hvorugt fyrirtækjanna gerst sekt um þau brot sem Seðlabankinn hafi ætlað.

„Allt þetta mál er satt að segja óhugnanlegt og lyginni líkast. Ýmsum kann að þykja ég taka stórt upp í mig með því að spyrða saman þáverandi ríkisstjórn, Seðlabankann og Kastljós í dæmalausri aðför að sjávarútvegsfyrirtækjum forðum. Þá skal nefnt að seint á nýliðnu ári fékk ég óvænt nýjar upplýsingar um aldeilis ótrúleg vinnubrögð Ríkisútvarpsins í þessu tiltekna máli.

Vonandi verða þau spil lögð á borð opinberlega og þá mun þeim sem ábyrgð bera í Efstaleiti 1 hvorki gagnast að reyna að þegja skandalinn í hel né svara með útúrsnúningum. Spurt verður um viðbrögð gagnvart starfsmönnum sem brutu af sér og viðbrögð gagnvart þeim sem Kastljós braut á.“

mbl.is