Meira plast í kvenfuglum en karlfuglum

Fýll flýgur yfir höfninni í Vestmannaeyjum. Plast fannst í maga …
Fýll flýgur yfir höfninni í Vestmannaeyjum. Plast fannst í maga 70% fýla í nýrri rannsókn. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Plast fannst í yfir 70% fýla og í 40-55% af kræk­lingi sam­kvæmt rann­sókn­um sem Um­hverf­is­stofn­un lét gera á síðasta ári. At­hygli vek­ur að mark­tækt meira plast var í kven­fugl­um og að ekki reynd­ist mark­tæk­ur mun­ur á magni plastagna í mæl­inga­stöðvum í ná­grenni höfuðborg­ar­inn­ar og vest­ur á fjörðum.

Það var Rann­sókna­set­ur Há­skóla Íslands á Suður­nesj­um sem sá um að skoða örplast í kræk­lingi á völd­um stöðum við Ísland.

Örplast fannst í fjörukræk­lingi á öll­um þeim stöðum sem kannaðir voru, en rann­sókn­ar­svæðið náði frá Reykja­nesi yfir á Vest­f­irði og fund­ust plastagn­ir í 40-55% kræk­lings á hverri stöð. Fjöldi örplastagna í hverj­um kræk­lingi var á bil­inu 0-4 og var meðal­fjöldi örplastagna 1,27 á hvern kræk­ling. Plastagn­irn­ar voru aðallega þræðir af ýms­um gerðum og lit­um og var meðallengd þeirra 1,1 mm, en ekki reynd­ist mark­tæk­ur mun­ur á fjölda örplastagna í kræk­lingi á milli stöðva.

Kræklingur tíndur í Hvalfirði. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með …
Kræk­ling­ur tínd­ur í Hval­f­irði. Mynd­in teng­ist efni frétt­ar­inn­ar ekki með bein­um hætti. Ljós­mynd/​MAST

Hefði talið plastið meira á þétt­býlli svæðum

Katrín Sól­ey Bjarna­dótt­ir, sér­fræðing­ur hjá Um­hverf­is­stofn­un, seg­ir í sam­tali við mbl.is að þessi síðasta niðurstaða hafi komið sér nokkuð á óvart. „Fyr­ir fram hefði maður kannski haldið að það það mæld­ist meira af plastögn­um í ná­grenni fjöl­býlli staða þar sem er meiri skolp­los­un og annað, en svo var ekki,“ seg­ir hún.

Spurð hvort þetta þýði að sjór­inn sé orðinn svo mettaður plasti að staðsetn­ing skipti ekki máli, seg­ir Katrín Sól­ey þetta kalla á frek­ari rann­sókn­ir. „Það er erfitt að draga álykt­an­ir út frá einni rann­sókn, en von­andi get­um við haldið áfram að gera sam­bæri­leg­ar rann­sókn­ir næstu árin þannig að við sjá­um þá hvort það sé ein­hver breyt­ing.“

„Núna vit­um við alla vegna hvernig ástandið er og get­um þá fylgst með í framtíðinni,“ seg­ir hún.

Ekki hef­ur áður verið gerð sam­bæri­leg rann­sókn á kræk­lingi hér við land, en fýll­inn hef­ur í tvígang verið rann­sakaður.

Minna plast en í fyrri rann­sókn­um

Nátt­úru­stofa Norðaust­ur­lands rann­sakaði plast í maga fýla og fannst plast í maga í um 70% þeirra 43 fýla sem skoðaðir voru nú og er það minna en í fyrri rann­sókn­un­um tveim­ur. Í þeirri fyrri sem gerð var 2011 mæld­ist plast í 79% fýla, en í rann­sókn sem gerð var 2013 fannst það í 90% fugl­anna. Óljóst er þó hvað veld­ur þess­um mun milli rann­sókna.

Að þessu sinni fannst meira en 0,1 g af plasti í 16% fugl­anna, en viðmiðun­ar­mörk OSP­AR (samn­ings um vernd­un haf­rým­is Norðaust­ur-Atlants­hafs­ins) er að 0,1 g grein­ist í inn­an við 10% fugl­anna. „Við erum í lægri kant­in­um miðað við það sem grein­ist ann­ars staðar,“ seg­ir Katrín Sól­ey og vís­ar til töflu yfir hlut­fall fýla með plast í melt­ing­ar­vegi á svæðum í Norður-Atlants­hafi. „Þetta er þó nátt­úru­lega bara ein rann­sókn,“ bæt­ir hún við.

Í tveim­ur fýl­um sem komu frá Vest­fjörðum fannst óvenju­mikið magn af plasti, eða 28 agn­ir í hvor­um fugli, en að öðru leyti var ekki mun­ur milli lands­hluta og var meðal­fjöldi plastagna í melt­ing­ar­vegi fýl­anna 3,65.

Mark­tækt meira plast var hins veg­ar í kven­fugl­um en karl­fugl­un­um, bæði hvað varðar fjölda plastagna og þyngd og seg­ir Katrín Sól­ey þetta hafa komið nokkuð á óvart, en plast fannst í 61% karl­fugla og 87% kven­fugla. „Það er spurn­ing hvað veld­ur, því það er ekki talið að kyn­in beri mis­mikið plast,“ seg­ir hún. Fáar rann­sókn­ir hafi borið sam­an mun á plasti eft­ir kynj­um , en í þeim sem það hef­ur verið gert hef­ur ekki greinst neinn mun­ur. Katrín Sól­ey seg­ir það því verða áhuga­vert að fylgj­ast með hvort kynjamun­ur­inn mæl­ist hér áfram á næstu árum.

Fylla mag­ann af ólíf­rænu plastefni

Ekki hef­ur enn verið rann­sakað hvaða áhrif örplastið hafi á fýl­inn eða kræk­ling­inn og seg­ir Katrín Sól­ey margt enn órann­sakað í þess­um efn­um. „Svo erum við að inn­byrða t.d. kræk­ling­inn og hversu mikið af plast­inu og efn­un­um sem í því eru fer þá í okk­ur?“ spyr hún.

Katrín Sól­ey seg­ir þá þekkt að fýl­ar, líkt og ýmis önn­ur dýr, telji plastið til mat­ar. „þeir telja sig svo hafa fyllt mag­ann af nær­ingu, sem er síðan bara ólíf­rænt plastefni og þau dýr sem þetta gera deyja.“ Hún bæt­ir við að rann­sókn­ir hafi verið gerðar á þessu er­lend­is. „Síðan hafa kven­fugl­ar líka verið að fóðra ung­ana sína á plasti og þá lifa þeir nátt­úr­lega ekki held­ur.“

mbl.is