Framlegð fiskvinnslufyrirtækja á Íslandi reyndist að meðaltali 10,61% á árinu 2017 og hafði ekki mælst lægri í áratug þar á undan. Hæst reyndist framlegðin árið 2009 þegar hún var 20,79% en lækkaði án afláts frá árinu 2011 þegar hún mældist 19,1%.
Þetta kemur fram í nýrri greiningu Friðriks Þórs Gunnarssonar, hagfræðings Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem birt hefur verið á heimasíðu samtakanna. „Árið 2017 sátu eftir tæpar 11 krónur af hverjum 100 krónum sem fiskvinnslan fékk í tekjur, áður en tekið var tillit til fjármagnskostnaðar og tekjuskatts.“
Bendir Friðrik Þór á að tölurnar sem þarna er vísað til eigi við um greinina í heild sinni en segi ekki alla söguna varðandi hvert og eitt fyrirtæki. „Sumar fiskvinnslur munu því standa verr en aðrar. Í mörgum tilvikum mun það raunar standa tæpt hvort rekstrargrundvöllur sé yfir höfuð til staðar til lengri tíma. Sú staða gæti orðið afdrifarík fyrir byggðarlögin sem reiða sig á starfsemi fiskvinnslu,“ segir í samantektinni.
Í samtali við Morgunblaðið segir Friðrik Þór að þegar rýnt er í tölur varðandi fiskvinnsluna komi í ljós að það séu ekki breytingar á hráefniskostnaði sem dregið hafi úr hagkvæmni og framlegð fyrirtækjanna á síðustu árum. Skýringanna sé hins vegar fremur að leita í auknum launakostnaði.
„Hlutfall kostnaðar vegna aðfanga er nokkuð áþekkt frá einum tíma til annars. Hráefni sem hlutfall af heildar aðfangakostnaði var alla jafna á bilinu 70-80% á tímabilinu 1997-2017. Aðrir einstakir kostnaðarliðir vega ekki þungt. Sumum hættir til að álykta á þá leið, að þróun hráefniskostnaðar hafi úrslitaáhrif á rekstrarafkomu og hagkvæmni í vinnslu.
Þetta kann að vera rétt fyrir einstaka fyrirtæki og fer eftir því hversu greiðan aðgang það hefur að hráefni. Hins vegar er þetta ekki alls kostar rétt fyrir atvinnugreinina í heild, enda fylgjast hráefniskostnaður og aflaverðmæti að og þar af leiðandi einnig tekjur.“
Frekari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.