Hafa ekki haft neikvæð efnahagsáhrif

Hvalveiðiskip á siglingu.
Hvalveiðiskip á siglingu. mbl.is/Árni Sæberg

Full­yrðing­ar um nei­kvæð áhrif hval­veiða á ís­lenskt efna­hags­líf eiga ekki við rök að styðjast sam­kvæmt niður­stöðum skýrslu Hag­fræðistofn­un­ar Há­skóla Íslands um þjóðhags­leg áhrif hval­veiða sem unn­in var fyr­ir at­vinnu­vegaráðuneytið og kynnt í dag.

Fram kem­ur í skýrsl­unni að gögn bendi þannig ekki til þess að hval­veiðar hafi slæm áhrif á ís­lenskt efna­hags­líf. Einkum og sér í lagi sé ekki að finna mark­tæk­ar vís­bend­ing­ar um að hval­veiðar dragi úr ferðum út­lend­inga hingað til lands að neinu ráði.

Þrátt fyr­ir að Grænfriðung­ar og önn­ur um­hverf­is­sam­tök hafi rekið mikla her­ferð til þess að fá fólk til þess að ferðast ekki til Íslands á meðan Íslend­ing­ar veiddu hvali í vís­inda­skyni á seinni hluta 9. ára­tug­ar síðustu ald­ar hafi er­lend­um ferðamönn­um engu að síður fjölgað um 34% frá 1986 til 1990 eða fjór­um pró­sent­um meira en í Bretlandi á sama tíma.

„Ekki þarf að rifja upp fjölg­un er­lendra ferðamanna eft­ir 2009. Ekki er þar held­ur að finna aug­ljós merki um að hval­veiðar fæli fólk héðan. Ekki er held­ur að sjá að hval­veiðar hafi dregið úr áhuga á hvala­skoðun hér við land,“ seg­ir enn frem­ur og bent á að stærsti hluti hval­veiða við Ísland séu á langreyði og fari þær fram langt utan hvala­skoðun­ar­svæða.

Íslend­ing­um tek­ist að stýra hval­veiðum af ábyrgð

Fram kem­ur að Íslend­ing­ar hafi veitt inn­an við 1% af öll­um hvöl­um sem veidd­ir hafi verið í heim­in­um frá stríðslok­um og fram að banni Alþjóðahval­veiðiráðsins árið 1986. „Eft­ir 1986 er hlut­fall Íslend­inga af veidd­um hvöl­um í heim­in­um um 3%. Gögn­in sýna einnig að Íslend­ing­ar hafa náð að stýra hval­veiðum af ábyrgð. Þeir hafa bannað veiðar úr stofn­um sem standa illa. Slæma stöðu sumra hvala­stofna við landið hef­ur að mestu leyti mátt rekja til of­veiði ann­ars staðar á hnett­in­um.“

Rann­sókn­ir bendi til þess að hval­ir hafi veru­leg áhrif á aðra nytja­stofna við Ísland. „Stofn­ar hrefnu og langreyðar við Ísland eru tald­ir vera af svipaðri stærð í dag og fyr­ir tíma hval­veiða, langreyðastofn­inn jafn­vel stærri. Ef stofn­ar hrefnu og langreyðar væru 40% minni, gæti verðmæti afla Íslend­inga auk­ist um á ann­an tug millj­arða króna á ári – og það ein­göngu vegna beins afráns.“

Hval­veiðar hluti af hag­kvæmri nýt­ingu nátt­úru­auðlinda

Fram kem­ur enn frem­ur að hagnaður af hvala­skoðun og hval­veiðum hafi verið lít­ill á síðustu árum. Fleiri starfi við hvala­skoðun en laun séu mun hærri hjá þeim sem starfað hafa hjá Hval hf. Bent er á að hvöl­um hafi fjölgað mikið við Ísland und­an­farna ára­tugi. Eðli­legt virðist að skil­greina fleiri hvala­teg­und­ir sem nytja­stofna sem veiða megi úr ef staða þeirra leyf­ir.

„Með skyn­sam­legri nýt­ingu nátt­úru­auðlinda og aukn­um milli­ríkja­víðskipt­um tókst Íslend­ing­um að fara úr því að vera með fá­tæk­ustu þjóðum Evr­ópu og ná lífs­kjör­um sem eru með því besta sem þekk­ist í ver­öld­inni. Þegar allt er skoðað virðast hval­veiðar vera hluti af hag­kvæmri nýt­ingu nátt­úru­auðlinda lands­manna.“

Þá seg­ir að rann­sókn­ir sýni að hvala­skoðun geti haft áhrif á hegðun hvala og truflað þá í fæðuleit. „Eðli­legt er að um hana gildi regl­ur sem tryggja hag­kvæma nýt­ingu með sjálf­bærni og virðingu fyr­ir nátt­úr­unni að leiðarljósi. Ef of mörg hvala­skoðun­ar­fyr­ir­tæki elta hvali á litlu svæði er hætt við að hval­ir forðist svæðið og af­komu grein­ar­inn­ar sé stefnt í hættu,“ seg­ir enn frem­ur. Mörg lönd hafi sett regl­ur um hvala­skoðun.

mbl.is