Notuðu kúbein til að stela mörgæsum

Dvergmörgæsir eru friðaðar á Nýja-Sjálandi. Þær eru minnstar allra mörgæsa, …
Dvergmörgæsir eru friðaðar á Nýja-Sjálandi. Þær eru minnstar allra mörgæsa, ekki nema 25 sm háar og vega 1 kg. Ljósmynd/Wikipedia.org

Þrem­ur dverg­mörgæs­um var stolið úr holu sinni við Hawkes Bay á Nýja-Sjálandi og segja land­verðir að sést hafi til tveggja manna nota kúbein til að losa steina frá holu mörgæs­anna og svo krækja þeim upp úr hol­unni. Þeim til aðstoðar hafi svo verið kona sem lýsti þeim með vasa­ljósi.

Ein mörgæs­anna drapst við þess­ar til­fær­ing­ar, en menn­irn­ir höfðu hinar tvær með sér á brott.

Dverg­mörgæs­in er minnst allra mörgæsa­teg­unda, ekki nema 25 sm á hæð. Hún nýt­ur hún friðunar á Nýja-Sjálandi, þar sem þeim fer nú fækk­andi.

BBC hef­ur eft­ir yf­ir­völd­um að þau telji þjófnaðinn gefa til kynna ein­hvers kon­ar smygl­starf­semi.

„Þetta veld­ur okk­ur virki­leg­um áhyggj­um þar sem við telj­um þetta ekki vera eins­dæmi,“ sagði  Rod Han­sen, hjá um­hverf­is­vernd­ar­sviði Hawkes Bay.

„Strax næsta dag fund­um við dauða mörgæs á floti í ná­grenn­inu og svo virðist sem hún hafi drep­ist af völd­um höfuðmeins.“

Ekki er vitað hvert var farið með fugl­ana, né held­ur hef­ur tek­ist að bera kennsl á veiðiþjóf­ana.

 „Litlu mörgæs­irn­ar eru mjög viðkvæm­ar á þess­um tíma. Þær skipta um ham á tíma­bil­inu frá janú­ar fram í mars og dvelja þá í hol­um sín­um til að vernda sig,“ sagði Han­sen. „Þetta bend­ir til þess að veiðiþjóf­arn­ir hafi vitað ná­kvæm­lega hvenær væri best að ráðast til at­lögu gegn þeim.“

Brot á borð við mörgæsastuld­inn geta varðað allt að tveggja ára fang­elsi og sekt­ar­greiðslu að upp­hæð rúm­ar átta millj­ón­ir króna.

mbl.is