Tengist stærri breytingum

Leturhumar.
Leturhumar.

Tak­markaðar veiðar á humri í ár til að fylgj­ast með þróun stofns­ins eru ekki trygg­ing fyr­ir því að stofn­inn rétti úr kútn­um. Nýliðun er í sögu­legu lág­marki og ár­gang­ar frá 2005 eru mjög litl­ir, eins og fram kom í ráðgjöf í síðustu viku. Þegar spurt er hvað valdi hruni í stofn­in­um eru svör ekki á reiðum hönd­um. Bent er á að ýms­ir aðrir stofn­ar við Suður­land hafi minnkað og einnig hafi fugl­um eins og lund­um fækkað. Skýr­inga er einkum leitað í frum­fram­leiðslu hafs­ins.

Jón­as P. Jónas­son, fiski­fræðing­ur á Haf­rann­sókna­stofn­un, seg­ir að á síðustu árum hafi orðið nýliðun­ar­skort­ur hjá suðlæg­um teg­und­um, sem einkum hafi veiðst suður af land­inu. Hann nefn­ir keilu, blálöngu og langlúru. Einnig nefn­ir hann lunda­stofn­inn, sem hafi liðið fyr­ir hrun í stofni sandsíl­is, og seg­ir að menn beini sjón­um sín­um meðal ann­ars að frum­fram­leiðslunni í haf­inu.

„Hvað vantaði sílið?“

„Lund­ann vantaði sandsílið, en hvað vantaði sílið?“ spyr Jón­as. „Ég hef trú á að þessi þróun teng­ist stærri breyt­ing­um í haf­inu og þá ekki síst seltu­inni­haldi sjáv­ar, en fyr­ir Suður­landi var sjór mjög seltu­rík­ur í nokk­ur ár, en hann er aft­ur orðinn seltu­minni. Þarna eru ein­hverj­ar aðstæður sem skýra að öll­um lík­ind­um nýliðun­ar­brest hjá humri meðal ann­ars. Minna seltu­inni­hald gæti leitt til þess að nýliðun lag­ist eitt­hvað. Full­orðinn hum­ar vex hins veg­ar og þrífst ágæt­lega.“

Háf­sýni af humarl­irf­um

Jón­as seg­ir að á síðasta ári hafi í fyrsta skipti verið reynt að taka háf­sýni af humarl­irf­um á fjórðu hverri rann­sókna­stöð. Lirf­ur hafi fund­ist á um 40% þess­ara stöðva, sem sé já­kvætt. Reynt verði að meta það sem sjá­ist í svif­inu og bera sam­an við nýliðun eft­ir nokk­ur ár.

Hum­ar er við norður­mörk út­breiðslu sinn­ar hér við land og hann kann ekki vel við sig fari hita­stig sjáv­ar niður fyr­ir 6-9 gráður, að sögn Jónas­ar. Humar­inn hafi leitað vest­ur með land­inu með hækk­andi hita­stigi síðustu ár, en fari nán­ast ekki aust­ar en að Beru­fjarðarál þar sem séu skörp skil.

Alls staðar svipað ástand

Skip sem stunda humar­veiðar hafa orðið öfl­ugri á síðustu árum, en veiðarfæri jafn­framt full­komn­ari. Jón­as seg­ist ekki skrifa und­ir að of miklu veiðiálagi megi kenna um hrun í humarstofn­in­um. Sé farið á svæði þar sem veiðar hafi ekki verið stundaðar komi í ljós svipað ástand og á veiðisvæðum og þar sé held­ur ekki að sjá ung­an hum­ar eða meiri nýliðun.

Stofn­matið í ár er byggt er á stofn­mæl­ingu þar sem humar­hol­ur eru tald­ar með neðan­sjáv­ar­mynda­vél­um og er það í þriðja sinn sem slík stofn­mæl­ing er gerð. Jón­as seg­ir að með þess­um mynda­tök­um fá­ist einnig upp­lýs­ing­ar um ástand botns þar sem veiðarfæri hafa farið yfir og greini­lega megi sums staðar sjá tog­för.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: