Skipulagsstofnun hefur gefið út álit sitt á mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar stækkunar fiskeldis Matorku úr 3.000 tonnum í 6.000 tonn að Húsatóftum í Grindavíkurbæ. Skipulagsstofnun telur að setja verði ákveðin skilyrði fyrir veitingu leyfis fyrir stækkun.
Í álitinu er fjallað um áhrif framkvæmdarinnar á jarðmyndanir, lífríki í fjöru, fugla og grunnvatn. Telur Skipulagsstofnun mikilvægt að fylgst verði með ástandi lífríkis í fjöru, ástandi viðtaka og grunnvatnsstöðu og brugðist við með viðeigandi hætti ef áhrif framkvæmdarinnar verði meiri en áætlað er. Skipulagsstofnun telur þó að með fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum sé hægt að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þá telur stofnunin að við leyfisveitingar þurfi að setja skilyrði um vöktun grunnvatns og viðbrögð við áhrifum vatnstöku á grunnvatnsborð.