Fagurkeri sem elskar útivist

Þórey er mikil útivistarkona og velur frekar að versla útivistarfatnað …
Þórey er mikil útivistarkona og velur frekar að versla útivistarfatnað en tískufatnað þessa dagana Ljósmynd/Aðsend

Þórey Vilhjálmsdóttir starfar sem ráðgjafi í stefnumótun og stjórnun hjá Capacent. Hún er útivistarkona að eigin sögn, landvættur og með ástríðu fyrir ævintýrum. Hún er einnig móðir tveggja barna, lestrarhestur og hönnunarunnandi þó að hún velji að kaupa útivistarfatnað frekar en tískufatnað þessa dagana. 

Hvaða borg er í uppáhaldi?

„Reykjavík er í svo miklu uppáhaldi hjá mér. Það eru algjör forréttindi að búa í borginni og geta síðan keyrt í kortér og verið komin í einstaka náttúrufegurð þar sem hægt er að stunda útivist allan ársins hring. En fyrir utan Reykjavík er Tókýó líka frábær borg. Ég varð alveg heilluð af henni í heimsókn minni þangað nú fyrir jólin. Mér finnst líka alltaf gaman að koma til Parísar, það er eitthvað svo rómantískt, sjarmerandi og ekta við borgina.“

Áttu gott ráð tengt því að pakka?

„Já, ég fékk svona nethulstur í MUJI sem eru frábær til þess að skipuleggja pökkun. Það er miklu minna mál að pakka eftir að ég fékk þau. Fyrir bæði útivistar-, vinnu- eða skemmtiferðir almennt. Ég náði loksins fyrir nokkrum árum að temja mér naumhyggju í pökkun, það voru tímamót!“

Hvað gerir þú alltaf þegar þú ferð til nýrrar borgar?

„Leita að besta kaffibollanum, finn hvað er mest spennandi svæðið og rölti þar um til að anda að mér borginni. Mér finnst líka gaman að fara á „Rooftop“ bari þar sem hægt er að sjá yfir borgina og svo er alltaf gaman að finna nútímalistasafn til þess að auðga andann.“

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn í útlöndum?

„Ég er mjög spennt fyrir því að fara í fleiri útivistarferðir þannig að rétta svarið væri líklega fjöll og fjallgarðar.“

Hvaða nauðsynjavöru keyptur þú þér síðst í útlöndum?

„Þegar ég var í Japan keypti ég mér þrjá hatta, ég var komin með mikla þörf fyrir að eignast hatta sem eru auðvitað nauðsynjavara.

Í Japan keypti Þórey sér þrjá forláta hatta sem að …
Í Japan keypti Þórey sér þrjá forláta hatta sem að sjálfsögðu eru hverri konu nauðsyn á ferðalögum. Ljósmynd/Aðsend

En það sem stendur upp úr eru líklega göngubuxurnar sem ég keypti mér í Sviss eftir að hafa gengið Haute Route í Ölpunum síðasta sumar, þær eru fullkomnar.“

Hvar er best að versla?

„Ég elska að fara í útivistarverslanir, er reyndar í búnaðarbindindi núna en get alveg tapað mér í alls konar skemmtilegu dóti og útivistarfatnaði.“

Hvert er skemmtilegast að ferðast innanlands?

 „Ísafjörður og Vestfirðirnir eru í miklu uppáhaldi. Ég hef farið töluvert oft til Ísafjarðar núna upp á síðkastið á gönguskíði og einnig tók ég þátt í þríþrautinni Vesturgötunni síðastliðið sumar. Það eru allavega þrjár ferðir til Ísafjarðar og Þingeyrar á döfinni á þessu ári. Svo er ég vonandi að fara upp á Hvannadalshnjúk í vor ef veður leyfir og fleiri skemmtilegar ferðir með FÍ Landkönnuðum, mjög oft upp á hálendi sem er auðvitað ævintýralega fallegt.“

Hvað gefa ferðalög innanlands þér?

„Þau færa mér núvitund, gleði, góðan félagsskap, tengingu við náttúruna og almenna alsælu.“

Þórey ásamt börnunum sínum í ævintýraferð.
Þórey ásamt börnunum sínum í ævintýraferð. Ljósmynd/Aðsend

Hver er skemmtilegasti ferðafélaginn?

 „Börnin mín eru auðvitað langskemmtilegustu ferðafélagarnir! Ég er nú annars svo heppin að eiga ansi marga góða ferðafélaga þannig að það er erfitt að telja alla upp, er í mörgum skemmtilegum ævintýrahópum. En einn traustur ferðafélagi sem alltaf nennir og þorir og ég hef farið Landvættahringinn með tvisvar sinnum er Birna Bragadóttir, ég er afar þakklát fyrir hana.“

Hver er uppáhaldsveitingastaðurinn þinn?

„Gló og Happ eru í miklu uppáhaldi hjá mér og ég reyni að heimsækja þá sem oftast.“

Hver er uppáhaldstískuhönnuðurinn þinn?

„Áherslurnar hafa breyst töluvert á þessu sviði, ég lifði og hrærðist í tískuheiminum hér á árum áður þegar að ég rak Eskimo Models og hefði þá líklega nefnt nokkur hátískumerki. Ég fer helst í Banana Republic, Zöru, Evu, Farmers Market og Muji til að kaupa föt. Nú eru það þó eiginlega bara útivistarmerkin sem ég er mest spennt fyrir en ég er mjög hrifin af Craft-vörunum sem fást í Craftsport á Ísafirði hjá honum Bobba, góðar í alla útivist. Það var uppgötvun áratugarins að finna þá stórkostlegu verslun. North Face er líka klassískt og gott útvistarmerki, keypti mér frábæra jöklaúlpu frá þeim í New York í fyrra sem er ansi vel nýtt, það var góð fjárfesting.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: