Heimilar áframhaldandi hvalveiðar

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Þór Júlí­us­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, hef­ur gefið út reglu­gerð sem heim­il­ar áfram­hald­andi veiðar á langreyði og hrefnu árin 2019–2023. Nær ákvörðunin til veiða á fimm ára tíma­bili, eins og fyrri reglu­gerð gerði.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­inu.

Ákvörðunin er sögð byggj­ast á ráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar, en jafn­framt hafi ráðherra haft hliðsjón af ný­legri skýrslu Hag­fræðistofn­un­ar Há­skóla Íslands um þjóðhags­leg áhrif hval­veiða.

Við ákvörðun sína hafi hann enn frem­ur stuðst við minn­is­blað frá Haf­rann­sókna­stofn­un, sem óskað hafi verið eft­ir í kjöl­far skýrslu Hag­fræðistofn­un­ar, en minn­is­blaðið hef­ur verið birt á heimasíðu ráðuneyt­is­ins.

Síðan hvalatalningar hófust 1987 hefur langreyði fjölgað jafnt og þétt …
Síðan hvala­taln­ing­ar hóf­ust 1987 hef­ur langreyði fjölgað jafnt og þétt við Ísland. mbl.is/​Krist­inn Ingvars­son

Þre­fald­ast frá ár­inu 1987

Haf­rann­sókna­stofn­un ráðlegg­ur að ár­leg­ar veiðar á tíma­bil­inu 2018–2025 verði að há­marki 161 langreyður á veiðisvæðinu Aust­ur-Græn­land/​Vest­ur-Ísland og að há­marki 48 dýr á svæðinu Aust­ur-Ísland/​Fær­eyj­ar og 217 hrefn­ur á ís­lenska land­grunns­svæðinu.

Ráðgjöf sína bygg­ir stofn­un­in á veiðistjórn­un­ar­líkani vís­inda­nefnd­ar Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðsins (IWC), sem er í til­kynn­ing­unni sagt eitt það var­færn­asta sem þróað hef­ur verið fyr­ir nýt­ingu á nokkr­um dýra­stofni í heim­in­um.

Síðan hvala­taln­ing­ar hóf­ust 1987 hef­ur langreyði fjölgað jafnt og þétt við Ísland. Við síðustu taln­ingu 2015 var fjöld­inn á skil­greindu stofnsvæði (Mið-Norður-Atlants­haf) met­inn um 37 þúsund dýr, sem jafn­gild­ir um þreföld­un frá 1987.

Útbreiðsla hrefnu færst norður

Hrefnu hef­ur fækkað mikið á grunn­sævi við Ísland frá síðustu alda­mót­um. Ekki er þó talið að stofn­inn hafi minnkað held­ur frem­ur að út­breiðslan hafi færst norður vegna minna fæðufram­boðs hér á sumr­in (síli og loðna). Ráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar tek­ur til­lit til þess­ar­ar þró­un­ar í út­breiðslu hrefnu­stofns­ins, að því er fram kem­ur í til­kynn­ing­unni.

Í minn­is­blaðinu er vísað til þess að Nátt­úru­fræðistofn­un Íslands hafi nú í fyrsta sinn gefið út svæðis­bund­inn vál­ista fyr­ir ís­lensk spen­dýr, þar sem beitt er sömu viðmiðum og á heimslista Alþjóðanátt­úru­vernd­ar­sjóðsins (IUCN). Þar flokk­ast langreyður sem „ekki í hættu“, sem sagt er staðfesta enn frek­ar gott ástand stofns­ins hér við land, og það á einnig við um hrefnu, sand­reyði og hnúfu­bak, auk smærri tann­hvala.

mbl.is