Loðnuleit verður haldið áfram norður með Austfjörðum og vestur með Norðurlandi næstu daga. Áætlað var að rannsóknaskipið Árni Friðriksson og Polar Amaroq héldu úr höfn í gærkvöldi, en þriðja leitarskipið, Ásgrímur Halldórsson SF, var austur af Langanesi síðdegis í gær.
Norsku skipin Roaldsen og Akeröy tóku þátt í leitinni fyrir austan um helgina, en þátttöku þeirra er lokið.
Að sögn Þorsteins Sigurðssonar, sviðsstjóra uppsjávarsviðs á Hafrannsóknastofnun, hefur verið farið yfir stórt svæði úti fyrir Suðaustur- og Austurlandi síðustu daga og fimm skip tekið þátt. Loðnan hefði verið mjög dreifð, í raun hefði ekkert bæst við frá fyrri mælingum og niðurstaðan gæfi ekki tilefni til að leggja til veiðikvóta.
Útgerðarmaður sem rætt var við í gær sagði að helsta vonin fælist í því að nægjanlegt magn fyndist fyrir Norðurlandi, en hluti loðnunnar hefur hrygnt þar síðustu ár. Þar fékk Hoffellið tvívegis góðan afla eftir miðjan mars síðasta vetur.