Bréf Más lýsi „sjúklegri þráhyggju“

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja fyrir utan Seðlabankann í nóvember …
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja fyrir utan Seðlabankann í nóvember síðastliðnum. mbl.is/​Hari

„Það er í fyrsta lagi að það er ágætt að hún sé kom­in og í öðru lagi staðfest­ir þessi grein­ar­gerð það sem við höf­um sagt í gegn­um árin að mestu leyti. Það er ánægju­legt. Hún staðfest­ir ótrú­lega stjórn­sýslu Seðlabanka Íslands í mál­inu og að Sam­herji hafi skilað gjald­eyri um­fram skila­skyldu til lands­ins,“ seg­ir Þor­steinn Már Bald­vins­son for­stjóri Sam­herja hf. innt­ur eft­ir viðbrögðum við grein­ar­gerð bankaráðs Seðlabanka Íslands, sem gerð var op­in­ber í gær.

For­stjór­inn seg­ir að í grein­ar­gerðinni og bók­un­um bankaráðsmanna, sem birt­ar voru henni sam­hliða, birt­ist „ótrú­legt viðhorf“ starfs­manna Seðlabanka Íslands. Bankaráðsmenn­irn­ir Sig­urður Kári Kristjáns­son og Þór­unn Guðmunds­dótt­ir sögðu í bók­un sinni að af­skipti Seðlabank­ans af störf­um bankaráðs í tengsl­um við vinnslu grein­ar­gerðar­inn­ar, sem for­sæt­is­ráðherra óskaði eft­ir, hefðu verið „ófor­svar­an­leg“.

„Viðhorf starfs­manna bank­ans til ákæru­valds­ins og umboðsmanns Alþing­is hafa komið fram áður, en þarna kem­ur viðhorf þeirra til for­sæt­is­ráðherra í ljós og manni er brugðið við það, að þeir séu að reyna að koma í veg fyr­ir að bankaráð sinni skyld­um sín­um og skili þess­ari skýrslu. Það finnst mér ótrú­legt,“ seg­ir Þor­steinn Már.

Ósátt­ur við bréf seðlabanka­stjóra

Fyrr í dag birti Seðlabanki Íslands bréf sem Már Guðmunds­son sendi for­sæt­is­ráðherra á vef sín­um, en bréfið var sent 29. janú­ar sl. Þor­steinn Már er ósátt­ur við það bréf og seg­ir það „upp­fullt af dylgj­um“ og rang­færsl­um og nefn­ir einnig sér­stak­lega að af­rit af bréf­inu hafi verið sent á Gylfa Magnús­son formann bankaráðs, mánuði áður en grein­ar­gerð bankaráðsins var kláruð.

„Í ljósi þess skil­ur maður af hverju starfs­menn bank­ans reyndu að koma í veg fyr­ir að skýrsl­an liti dags­ins ljós,“ seg­ir Þor­steinn Már, en bæt­ir við að bankaráð hafi hvorki látið þetta bréf Más né „hót­an­ir starfs­manna“ Seðlabank­ans hafa áhrif á sig við vinnslu grein­ar­gerðar til for­sæt­is­ráðherra.

Hann seg­ist aðspurður ætla að svara þeim rang­færsl­um sem hann telji að fel­ist í bréf­inu efn­is­lega síðar og set­ur út á það að bréfið hafi verið birt op­in­ber­lega á vef Seðlabank­ans á meðan grein­ar­gerð bankaráðs til for­sæt­is­ráðherra hafi ekki birst þar, en sú var birt á vef Stjórn­ar­ráðsins í gær.

Seðlabanka­stjóri haldi að hann sé bæði guð og dóm­stóll

Þor­steinn Már seg­ir að bréf seðlabanka­stjóra staðfesti að hann hafi borið rang­ar sak­ir á Sam­herja, sem sé refsi­vert, og að bréfið lýsi „sjúk­legri þrá­hyggju“ manns sem „held­ur að hann sé bæði guð og dóm­stóll“. Þor­steinn Már vand­ar seðlabanka­stjóra sann­ar­lega ekki kveðjurn­ar.

„Hann, enn einu sinni, vill ekki virða niður­stöðu neinna annarra. Enn einu sinni gef­ur hann öll­um öðrum fing­ur­inn,“ seg­ir Þor­steinn Már.

Spurður út í það sem Már Guðmunds­son sagði í bréfi sínu, um að hann hefði „ekk­ert á móti því að öll gögn máls­ins yrðu gerð op­in­ber,“ seg­ist Þor­steinn Már vera á þeirri skoðun að Seðlabank­inn ætti að birta rann­sókn­ar­skýrsl­ur sín­ar um mál Sam­herja og þá út­reikn­inga bank­ans, sem lagðir voru til grund­vall­ar hús­leit­inni hjá fyr­ir­tæk­inu árið 2012 og kær­um til sér­staks sak­sókn­ara.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina