Ekki á móti því að gögn verði opinberuð

Seðlabankinn hefur birt bréf sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri sendi Katrínu …
Seðlabankinn hefur birt bréf sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri sendi Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í lok síðasta mánaðar. mbl.is/Hari

Már Guðmunds­son seðlabanka­stjóri ritaði í bréfi sem hann sendi for­sæt­is­ráðherra í lok janú­ar að þrátt fyr­ir að Sam­herji hafi ekki verið fund­inn sek­ur fyr­ir dóm­stól­um vegna þeirra brota sem fyr­ir­tækið var kært fyr­ir, sé „ekki þar með sagt að mála­til­búnaður Seðlabank­ans hafi verið til­hæfu­laus“.

Bréfið, sem seðlabanka­stjóri ritaði Katrínu Jak­obs­dótt­ur 29. janú­ar síðastliðinn, hef­ur verið birt í heild sinni á vef Seðlabanka Íslands, en í gær var op­in­beruð grein­ar­gerð bankaráðs Seðlabank­ans, sem for­sæt­is­ráðherra óskaði eft­ir í nóv­em­ber síðastliðnum.

Í bréfi sínu til for­sæt­is­ráðherra seg­ir Már að það sé „vandmeðfarið að ræða það op­in­ber­lega hvort mála­til­búnaður Seðlabank­ans í Sam­herja­mál­inu hafi verið til­hæfu­laus eins og full­yrt hef­ur verið í fjöl­miðlun,“ þar sem ýmis helstu gögn máls­ins séu ekki op­in­ber og að tal um slíkt gæti verið túlka af sum­um sem „verið væri að halda því fram að Sam­herji væri sek­ur hvað sem niður­stöðum dóm­stóla líður“.

Hef­ur ekk­ert á móti því að gögn verði gerð op­in­ber

„Það hef­ur reynd­ar þegar verið gert af hálfu tals­manna Sam­herja þegar ég eft­ir að dóm­ur­inn féll tjáði mig í fjöl­miðlum til að út­skýra mun­inn á þeirri spurn­ingu hvort Sam­herji sé sek­ur og þeirri hvort aðgerðir Seðlabank­ans hafi verið til­hæfu­laus­ar. Fari Sam­herji hins veg­ar í skaðabóta­mál verður ekki und­an þess­ari umræðu vikist og að a.m.k. ein­hver máls­skjöl yrðu lögð fyr­ir dóm­inn og yrðu í þeim skiln­ingi op­in­ber. Ég hefði reynd­ar ekk­ert á móti því að öll gögn máls­ins yrðu gerð op­in­ber. Það verður hins veg­ar ekki gert nema að fengnu samþykki Sam­herja og það yrði að stroka yfir upp­lýs­ing­ar sem koma fram um þriðju aðila,“ skrif­ar seðlabanka­stjóri.

Már skrif­ar einnig að eft­ir­lits­stofn­an­ir, lög­regla og sak­sókn­ar­ar verði oft fyr­ir gagn­rýni á op­in­ber­um vett­vangi af hálfu þeirra sem aðgerðir þeirra bein­ast að og að fjöl­miðlar spyrji stund­um út í slík mál og krefj­ist upp­lýs­inga og skýr­inga.

Þögn Seðlabankans um málefni einstakra aðila er stundum túlkuð sem …
Þögn Seðlabank­ans um mál­efni ein­stakra aðila er stund­um túlkuð sem svo að eitt­hvað þoli ekki dags­ljósið, seg­ir Már. mbl.is/​Hari

„Eðli­leg þagn­ar­skylda ger­ir það hins veg­ar að verk­um að það er oft ekki hægt og er þá viðtekið svar að viðkom­andi geti ekki tjáð sig um ein­stök mál. Þetta á einnig við um Seðlabank­ann þegar kem­ur að mál­um ein­stakra aðila varðandi gjald­eyr­is­lög, hvort sem það er eft­ir­lit, und­anþágur eða rann­sókn­ir. Það virðist hins veg­ar að slík til­svör séu síður samþykkt þegar kem­ur að Seðlabank­an­um,“ skrif­ar seðlabanka­stjóri og seg­ir það lík­lega vegna þess að starfs­menn bank­ans séu van­ir því að tjá sig um önn­ur atriði, svo sem varðandi pen­inga­stefnu, fjár­mála­stöðug­leika og rekst­ur bank­ans.

Már seg­ir að til­hneig­ing sé til þess að túlka þögn Seðlabank­ans „sem vís­bend­ingu um að eitt­hvað þoli ekki dags­ljós“.

„Seðlabank­inn á því erfiðara með því að draga sig inn í skel og bíða þar til mál skýr­ast. Orðsporsáhætta og nei­kvæð smitáhrif á aðra starf­semi get­ur orðið meiri í til­felli Seðlabank­ans en sér­hæfðari eft­ir­lits­stofn­ana, lög­reglu og sak­sókn­ara,“ seg­ir Már í bréfi sínu til for­sæt­is­ráðherra.

Aðgerðirn­ar hafi haft „fæl­ingaráhrif“

Seðlabanka­stjóri skrif­ar að aðgerðir Seðlabank­ans gegn Sam­herja, hafi haft „tölu­verð fæl­ingaráhrif.“ 

„Þetta mátti t.d. glögg­lega sjá eft­ir hús­leit­ina hjá Sam­herja þó svo ekki hafi verið hugsað út í það fyr­ir­fram, enda ekki lög­mætt sjón­ar­mið í þessu sam­bandi. Það að það tókst að stöðva streymi af­l­andskróna á álands­markað, bæta virkni skila­skyldu og senda skýr skila­boð um að Seðlabank­an­um var al­vara með því að fram­fylgja höft­un­um bjó í hag­inn fyr­ir hið ár­ang­urs­ríka upp­gjör við er­lenda kröfu­hafa,“ skrif­ar Már.

Þrír meg­in­lær­dóm­ar af mál­inu

Í bréf­inu, sem er níu blaðsíður, fer Már yfir málið og seg­ist draga þrjá meg­in­lær­dóma af „þess­ari sögu“.

Í fyrsta lagi þurfi að vanda bet­ur til lög­gjaf­ar og tryggja það „eins og kost­ur er að ef talið er nauðsyn­legt til skemmri eða lengri tíma að setja í lög ákvæði sem hamla viðskiptafrelsi ein­stak­linga og fyr­ir­tækja með til­vís­un til al­manna­hags­muna að það sé trygg­ur laga­grunn­ur fyr­ir eft­ir­liti, rann­sókn­um, refsi­kennd­um viður­lög­um, þving­unar­úr­ræðum og refs­ing­um. Ella er hætt við að það sé gróf­lega verið að mis­muna borg­ur­un­um þar sem þeir hagn­ast sem fara ekki eft­ir regl­un­um á kostnað þeirra sem gera það sjálf­vilj­ug­ir.“

Í öðru lagi seg­ist Már telja að skapa þurfi meira svig­rúm fyr­ir sveigj­an­leika við úr­lausn mála. „Þar má nefna meira svig­rúm til að leiðbeina, leysa mál með sátt og því að vinda ofan af brot­um þar sem því verður við komið í stað sak­fell­inga og refs­inga,“ skrif­ar Már. Þetta seg­ir hann geta virst í and­stöðu við fyrsta lær­dóm­inn sem hann nefndi, en að svo þurfi ekki endi­lega að vera.

„Í til­felli fjár­magns­hafta fel­ast al­manna­hags­mun­irn­ir í því að þau halda. Ef það næst jafn­mik­ill eða meiri ár­ang­ur eft­ir þess­ari leið hvað það varðar held­ur en eft­ir refsi­leiðinni þá er hún auðvitað æski­legri því hún fel­ur í sér meira meðal­hóf og minni átök. Mark­miðið er ekki að há­marka sak­fell­ing­ar og refs­ing­ar held­ur að tryggja að stefn­an virki eins og ætl­ast er til með sem minnstri mis­mun­un og kostnaði,“ skrif­ar Már.

Í þriðja lagi seg­ir Már að ljóst sé að nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag við rann­sókn á brot­um á gjald­eyr­is­lög­um gangi ekki og fyrra fyr­ir­komu­lag hjá FME held­ur ekki. Þetta þurfi að skoða í þeirri vinnu sem nú stend­ur yfir varðandi end­ur­skoðun laga um Seðlabanka Íslands og sam­ein­ingu við FME.

„Að mínu mati er óheppi­legt að þessi starf­semi heyri beint und­ir seðlabanka­stjóra. Það þarf fjar­lægð til að koma í veg fyr­ir að mál séu per­sónu­gerð hon­um til að skapa stöðu sem málsaðilar hafa yf­ir­leitt ekki gagn­vart sér­hæfðari eft­ir­litsaðilum. Heppi­leg­ast er að það sé fjöl­skipuð stjórn eða nefnd sem taki loka­ákv­arðanir varðandi kær­ur eða sekt­ir. Þá þarf að fara yfir hlut­verk bankaráðs og tryggja að það blandi sér ekki í af­greiðslu ein­stakra mála. Þetta þarf allt að gera án þess að fórna því mark­miði að það sé skýr og hag­kvæm verka­skipt­ing og góð dreif­ing upp­lýs­inga í sam­einaðri stofn­un en það er eitt af meg­in­mark­miðum sam­ein­ing­ar­inn­ar,“ skrif­ar Már.

mbl.is