Stjórnar- og trúnaðarmannaráðsfundur verður haldinn í Sjómannafélagi Íslands í næstu viku vegna úrskurðar Félagsdóms um að brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur úr félaginu hafi falið í sér brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.
Þetta var ákveðið á stjórnarfundi sem var haldinn núna í hádeginu.
Að sögn Bergs Þorkelssonar, gjaldkera Sjómannafélags Íslands, eru fjórir stjórnarmenn úti á sjó, þar á meðal Helgi Kristinsson sem tók við formennsku af Jónasi Garðarssyni, og var því ákveðið að bíða með frekari fundarhöld og ákvarðanatökur vegna málsins þangað til í næstu viku.
Heiðveig María, sem bauð sig fram til formennsku í Sjómannafélagi Íslands en var síðan rekin þaðan, hefur krafist þess kosið verði að nýju um stjórn og formann félagsins eftir niðurstöðu Félagsdóms.
Félagið var dæmt til að greiða 1.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og 750.000 krónur til Heiðveigar fyrir málskostnaði.