Hassan Rouhani, forseti Írans, ætlar ekki að taka afsögn Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, gilda. Zarif birti mynd á Instagram á mánudagskvöld þar sem hann greindi frá ákvörðun sinni. Sagðist hann ekki lengur vera hæfur til að gegna embætti sínu.
Zarif sagði í blaðaviðtali sem birtist í gær að hann hefði sagt af sér þar sem átök milli flokka og fylkinga í landinu eitruðu út frá sér og sköðuðu utanríkisstefnu Írans.
„Að mínu mati stríðir afsögn þín gegn hagsmunum landsins og því get ég ekki fallist á hana,“ er haft eftir forsetanum í tilkynningu á vef forsætisráðherraembættisins.
Zarif hefur fundið fyrir aukinni pressu í embætti eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tók þá ákvörðun að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamkomulaginu við Íran sem gert var árið 2015 og taka upp allar þær refsiaðgerðir gegn Íran sem afnumdar voru með samkomulaginu.