Sífellt fleiri stelpur bætast í hópinn

Sífellt fleiri hjólreiðaverslanir og félög halda svokölluð samhjól þar sem …
Sífellt fleiri hjólreiðaverslanir og félög halda svokölluð samhjól þar sem hjólreiðafólki gefst tækifæri til að kynnast hvert öðru. Ljósmynd/Aðsend

Undanfarin ár hafa hjólreiðabúðir og félög haldið svokölluð samhjól þar sem hugmyndin er að efla hjólasamfélagið og hvetja hjólara í öllum flokkum að koma með og kynnast nýju fólki í sportinu. Verslunin Örninn heldur hið árlega BBB samhjól eða Burger, Bjór og Bratwurst hátíð 9. mars. „BBB hugmyndin kom til í tengslum við afmælisdag bjórsins á Íslandi, 1.mars. Lengi hafa fjallahjólreiðar og bjór tengst ákveðnum böndum, það er að segja að fá sér einn svellkaldan eftir góðan hjólatúr. Við bættum beikoni og bratwurst inn í þetta þar sem það fer sérlega vel með bjórnum. Það er þó ekki svo að ekki sé boðið upp á annað en bjór að drekka fyrir þá sem kjósa að sleppa bjórnum,“ segir Jón Þór Skaftason, verslunarstjóri Arnarins. „Þetta hefur heppnast mjög vel og mæting yfirleitt mjög góð. Í gegnum tíðina hafa samhjólin heldur laðað að karlkynið en þó eru alltaf að bætast stelpur í hópinn sem við fögnum og viljum enn þá fleiri í ár.“

Undanfarin ár hafa mætt allt að 200 manns og er að sjálfsögðu vonast eftir fleirum í ár enda fer hjólasamfélagið sístækkandi. Hjólað verður af stað frá Erninum um kl 15:00 og eru hjólarar hvattir til að vera á fjalla-, cyclocross- eða Gravel-hjóli.

mbl.is