Frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál var samþykkt á Alþingi á öðrum tímanum í dag. 44 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu en níu þingmenn, allir þingmenn Miðflokksins, voru á móti.
„Það er synd að sjá í hvað stefnir í þessari atkvæðagreiðslu og sannast nú enn á ný og hefur gert alloft áður að undanförnu að það eru í rauninni bara tveir flokkar á Alþingi, Miðflokkurinn og Samtryggingin,“ sagði Sigmundur Davíð við mikla kátínu sumra þingmanna sem skelltu upp úr.
Frumvarpið snýst í meginatriðum um hvort aflandskrónueigendum verði heimilt að fjárfesta í innistæðubréfum Seðlabankans í stað þess að setja féð eingöngu inn á bundinn reikning. Önnur umræða um frumvarpið hófst um miðjan dag á þriðjudag og stóð í um nítján klukkustundir yfir tvo sólarhringa vegna málþófs þingmanna Miðflokksins.
Viðskipta- og efnahagsnefnd kom saman í gærkvöldi eftir að annarri umræðu lauk og hófst þriðja umræða í dag. Hún stóð „aðeins“ í þrjár klukkustundir og að því loknu var gengið til atkvæðagreiðslu.
Óli Björn Kárason, formaður viðskipta- og efnahagsnefndar, sem fjallaði um frumvarpið sagði það mikið gleðiefni að greiða atkvæði með frumvarpinu. „Hér er ekki farið eftir embættismönnum eða þvingunum þeirra heldur einfaldri heilbrigði skynsemi,“ sagði Óli Björn.