En það er gaman að breyta til því frábæra skíðastaði má finna um víða veröld. Hér má líta nokkra skíðastaði í fjórum heimsálfum.
Fólk sækir aftur og aftur á þennan frábæra skíðastað í Kanada sem lendir gjarnan í fyrsta sæti yfir bestu skíðastaði heims. Þarna eru 200 fjallstindar á 32 kílómetra svæði og meðalsnjókoma á ári er þar 12 metrar, þannig að ekki vantar snjóinn. Whistler er aðalskíðastaður Kanadabúa og stærsta vetraríþróttasvæði Norður-Ameríku.
Með nýrri hraðbraut tekur aðeins tvo tíma að keyra þangað frá alþjóðlega flugvellinum í Vancouver. Í Whistler má finna allt frá hostelum til fimm stjörnu hótela.
Í Whistler eru yfir 200 brekkur og 37 skíðalyftur. Einn gondólinn flytur fólk þrjá kílómetra milli fjallstoppa og er lengsta skíðalyfta heims.
Í sumum brekkum er hægt að skíða allt árið. Mikil fjölbreytni er sögð í brekkum og er svæðinu er þeim haldið mjög vel við. Útsýnið skemmir ekki fyrir en af fjallstoppunum þarna er hægt að sjá Kyrrahafið. Svæðið hentar bæði byrjendum og lengra komnum og hentugt fyrir fjölskyldur.
Fjallasvæðið við bæinn Cortinu í Dólómítafjöllum Ítalíu býður upp á ótrúlega náttúrufegurð. Fólkið í þessum litla bæ á Norður-Ítalíu er vant ferðamönnum en staðurinn hefur verið vinsæll ferðamannastaður í þúsund ár. Í aldir hafa því heimamenn haft reynslu af túrisma og þá sérstaklega hvað varðar skíðaferðamennsku.
Mörg skíðasvæði eru á þessum slóðum en Cortina er ekki einungis þekkt vegna landslagsins, heldur einnig fyrir gamla þorpið sem þykir einstaklega sjarmerandi.
Skíðamennskan er fjölbreytt og hentar vel fyrir fjölskyldur en einnig fyrir þá allra reyndustu. Á svæðinu má finna 120 kílómetra af brekkum, bæði fyrir skíðafólk og brettafólk, og 35 lyftur sem flytja fólk á toppana. Hæsti toppurinn nær næstum 3.000 metrum. Í Cortinu er að finna bröttustu skíðabrekku Dólómítafjallanna og frábæran brettagarð.
Í bænum Niseko á japönsku eyjunni Hokkaido er að finna frábært skíðasvæði þekkt fyrir mikla lausamjöll. Meðalsnjókoma þar árlega er 15 metrar!
Þarna mætast í raun fjögur skíðasvæði og eru þetta vinsælustu skíðastaðir Japans.
Í Niseko má finna bæði breiðar og langar brekkur sem liðast niður skógivaxnar hlíðar; allt brekkur á heimsmælikvarða.
Í fjallinu, sem er eldfjall, má finna svæði við allra hæfi en þar eru til dæmis brettagarðar fyrir brettafólkið. Einnig er hægt að fara úr alfaraleið og skíða á ótroðnum slóðum, í orðsins fyllstu merkingu.
Nauðsynlegt er fyrir ferðalanga að stoppa á Rakuichiveitingastaðnum og fá sér soba-núðlur.
Zermatt er oft talinn fallegasti skíðastaðurinn í Ölpunum en hann státar af hæstu fjöllum í Sviss. Hann er í dag vinsælasti skíðastaður Sviss. Þangað koma árlega tvær milljónir manna víða að til þess að skíða og njóta sólarinnar. Hæstu tindar ná 3.883 metrum, enda tilheyrir staðurinn Matterhorn-skíðasvæðinu. Vegna þess er hægt að skíða þarna nánast árið um kring.
Á þessu svæði eru 20% af brekkunum svartar (erfiðastar) og margar þeirra utan alfaraleiðar og henta aðeins þeim reyndustu. Byrjendur ættu ef til vill að byrja á léttari brekkum annars staðar þótt vafalaust megi finna þarna brekkur við allra hæfi.
Einnig er hægt að skíða 15 kílómetra leið frá toppi Matterhorns og niður í þorpið. Það er ógleymanleg skíðaferð að sögn þeirra sem það hafa reynt.