„Verið að rétta fram sáttarhönd“

Bergur Þorkelsson, gjaldkeri Sjómannafélags Íslands.
Bergur Þorkelsson, gjaldkeri Sjómannafélags Íslands.

Heiðveigu Maríu Einarsdóttur, fyrrverandi formannsframbjóðanda í Sjómannafélagi Íslands, hefur verið boðið að ganga að nýju í félagið. Félagsdómur sagði brottreksturinn fela í sér brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Bergur Þorkelsson, gjaldkeri félagsins og kjörinn formaður, staðfestir í samtali við 200 mílur að ákveðið hafi verið að bjóða Heiðveigu að ganga aftur í félagið.

„Það er bara verið að lægja öldurnar í félaginu, rétta fram sáttarhönd og fá smá vinnufrið,“ segir Bergur.

Spurður hvort meira verði aðhafst í þessa veru segir hann að þetta sé fyrsta skrefið. 

„Okkur barst bréf frá tveimur félagsmönnum þess efnis að efna skyldi til kosninga aftur. Því var náttúrlega vísað til kjörnefndar, þar á það erindi heima. Kjörnefnd mun svara því erindi.“

mbl.is