Þær hafa dregið börnin sín og maka í gönguferðir um land allt og hafa verið í kvennagönguhópnum Mammútsystur síðan 2005. Þegar tveir jafnfljótir eru ekki nægilega hraðskreiðir skella þær á sig gönguskíðum eða fjallaskíðum. Til að nýta þá reynslu sem þær hafa öðlast á fjöllum ákváðu þær að skella sér í fjallamennskunám fyrir 5 árum og hafa unnið sem leiðsögumenn síðan þá. Eftir að hafa verið að ferðast með erlenda ferðamenn um landið okkar fallega fannst þeim kominn tími á að bjóða íslenskum konum að upplifa þessa dásemd á fjöllum með þeim. Síðastliðið sumar buðu þær því í fyrsta skipti upp á „skvísu”-ferðir norður á Strandir þar sem gengið var um stórbrotna náttúru og fallegir fossar í Ófeigsfirði skoðaðir ásamt því að stunda jóga á ströndinni og synda í ám, vötnum og sjó.
Nú í ár ætla þær að bjóða aftur upp á þessa geysivinsælu Strandaferð ásamt því að leggja land undir fót og fara, í samstarfi við Íslenska fjallaleiðsögumenn, með hóp kvenna að ganga Mont Blanc-hringinn. Gönguleiðin í kringum hæsta tind Evrópu er talin ein sú fegursta í heimi. Leiðin liggur í gegnum þrjú lönd; Frakkland, Ítalíu og Sviss, og hentar öllum þeim sem hreyfa sig reglulega. Fyrir utan stórbrotið útsýni og náttúru bjóða þær vinkonur upp á „happy hour” og jógateygjur í lok hvers dags.
Vinkonurnar langar að bjóða sem flestum konum að upplifa fallega náttúru, njóta líðandi stundar og bara vera þær sjálfar. Þetta kalla þær hið fullkomna húsmæðraorlof. Allar frekari upplýsingar um ferðina má finna hér.