Ánægð með lokunina

Skólahúsið á að vera komið aftur í lag í brjun …
Skólahúsið á að vera komið aftur í lag í brjun næsta skólaárs. mbl.is/Eggert

„Ég er mjög ánægð með að skólayfirvöld hafi tekið þessa ákvörðun og mér er létt,“ sagði Magnea Árnadóttir, móðir nemanda í Fossvogsskóla sem veiktist vegna myglu í skólahúsinu. Hún ætlar ekki að senda son sinn í skólann í þessari viku. „Ég tel húsnæðið vera óheilnæmt og mun ekki senda hann þangað fyrr en búið er að laga skólabygginguna.“

Magnea Árnadóttir þekkir einkenni og áhrif myglu og ætlar ekki …
Magnea Árnadóttir þekkir einkenni og áhrif myglu og ætlar ekki að senda son sinn í skólann í þessari viku. Ljósmynd/Aðsend

Magnea gagnrýndi niðurstöðu Mannvits sem gerði úttekt á skólahúsnæðinu og knúði á um að loftgæði í Fossvogsskóla yrðu skoðuð betur. Hún hafði sjálf veikst vegna myglu í húsnæði og þekkti einkennin og áhrifin. 

Magnea sá misræmi í niðurstöðum Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) og Mannvits varðandi sýnin úr skólanum. „Ég var mjög ósátt við niðurstöðu Mannvits og skýrslu þeirra. Ég vissi af leka í skólanum en Mannvit sagði að það væri ekki leki,“ sagði Magnea.

Tekin voru sex sýni

Mannvit gerði úttekt að beiðni Reykjavíkurborgar og tók fimm ryksýni og eitt efnissýni í Fossvogsskóla. Þau voru send til NÍ og niðurstöður túlkaðar í minnisblaði.

Í öllum sýnunum fundust sveppagró sem oft finnast í útilofti. Ekkert sýnanna þótti sýna örugg merki um rakaskemmdir, en aðeins eitt var laust við merki um örverur. Vitnað var í niðurstöður NÍ sem sögðu: „Þar sem megnið af gróum í ryksýnum er ættað úr útilofti er mun líklegra að byggingin sé laus við rakaskemmdir og myglu.“ Það var túlkað sem að mengun í ryksýnum hefði komið frá gömlum rakaskemmdum. Fleiri niðurstöður þóttu styðja þá skýringu. Ekki var hægt að fullyrða að engar rakaskemmdir væru í húsnæðinu „en líklega eru þær a.m.k. ekki miklar, séu þær einhverjar“.

Í niðurstöðum skýrslu NÍ um rannsókn á sýnum úr Fossvogsskóla fyrir Mannvit segir m.a. að verði rakaskemmdir í húsnæði sé oft heppilegra að taka sýni af byggingarefninu sem varð fyrir rakaskemmdinni, þar sem sveppavöxtur geti verið staðbundinn á því. Sumar sveppategundir geti framleitt sveppaeiturefni sem berast út í loftið með ögnum úr líkama sveppsins, án þess að gró þeirra verði loftborin. Efni sem berast með þessum örsmáu ögnum geti valdið einstaklingum sem búa eða starfa innilokaðir í sama rými heilsutjórni. „Þessar agnir falla svo úr loftinu og safnast upp ásamt öðrum ögnum í ryki. Þær eru það litlar og óreglulegar að sérstakar aðferðir þarf til að safna þeim og dugar smásjárskoðun eins og hér er notuð ekki til að greina þær.“

mbl.is