Riðið á vaðið á Siglufirði

Gert að grásleppu á Húsavík. Mynd úr safni.
Gert að grásleppu á Húsavík. Mynd úr safni. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Fáir kaupendur á grásleppu hafa gefið upp verð fyrir vertíðina en örfáir dagar eru þar til vertíðin hefst. Grásleppuverkandinn Sverrir Björnsson ehf. á Siglufirði hefur þó riðið á vaðið en hann mun hafa gefið upp 260 krónur fyrir kílógrammið af óskorinni grásleppu 6. mars.

Þetta kemur fram á vef Landssambands smábátaeigenda og um leið bent á að verkandinn hafi einnig verið fyrstur til að gefa upp verð fyrir síðustu vertíð.

„Þetta er ánægjuleg þróun því heyrt hefur til undantekninga að legið hafi fyrir verð á grásleppu fyrir upphaf vertíða,“ segir á vef sambandsins, sem beinir því einnig til útgerða á svæðum þar sem vænta megi þorsks í einhverju magni sem meðafla, að kanna hvort kaupendur á grásleppu taki einnig á móti þorski úr grásleppunetum á föstu verði. 

Bjartsýni er sögð ríkja fyrir komandi vertíð en sambandið tekur fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sé með í undirbúningi frumvarp um kvótasetningu á grásleppu. Gefið hafi verið út að afli á grásleppu 2019 telji ekki með í veiðireynslu, komi til kvótasetningar.

mbl.is