Áhyggjur sjávarútvegsráðherra af loðnubrestinum snúa helst að því að ekki sé vitað nægilega mikið um vistfræði- og umhverfisþætti sem lúta að loðnunni. „Það eru einhverjar breytingar í hafinu sem við þurfum að rannsaka betur,“ sagði Kristján Þór Júlíusson í Kastljósi í kvöld.
Hann segir mikla fjármuni þegar hafa verið setta í rannsóknir vegna þessa og leit að loðnu hafi aldrei verið eins umfangsmikil og hún var nú í vetur.
Aðspurður sagði hann ekki um það að ræða að ganga gegn ráðgjöf vísindamanna og gefa út loðnukvóta. „Við höfum sem betur fer byggt okkar auðlindanýtingu á ráðgjöf vísindamanna, bestu fáanlegu ráðum hverju sinni,“ sagði Kristján Þór og bætti við að deilur vegna þessa hefðu hjaðnað vegna breyttra viðhorfa og aukinnar þekkingar.
„Ég hef enga trú á því að uppsjávarveiðin sé að leggjast af. Þetta er tímabundið ástand og ég hef trú á því að þetta komi þó að síðar verði.“