Jenna Huld Eysteinsdóttir, húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá íslenskri konu með æðaslit.
Hæ Jenna.
Ég er með æðaslit á fótleggjunum og það er mjög áberandi. Er að fara til sólarlanda í sumar og langar að láta laga þetta. Er það hægt?
Kveðja, Guðbjörg.
Sæl,
Já, það er hægt. Æðaslit á ganglimum er sjúkdómur í bláæðakerfinu og til að meðhöndla það er dýpri laser notaður en á æðaslit í andliti. Sá laser kallast YAG laser. Í ganglimum er bæði grunnt og djúpt æðakerfi og tengiæðar á milli. Æðaslitin myndast í grunna kerfinu, en þar sitja æðarnar í húðinni. Æðaslit er stundum samfara æðahnútum sem geta verið önnur birting sama sjúkdóms. YAG laserinn nær ekki að meðhöndla æðahnúta, en til þess þarf að leita til æðaskurðlækna. Það er því mikilvægt að koma í viðtal til læknis áður en pantað er í meðhöndlun til að meta hvort um einungis æðaslit er að ræða, eða einnig æðahnúta. Margir hafa þó æðaslit án þess að æðahnútar séu til staðar. Talið er að allt að 40% kvenna fái æðahnúta eða æðaslit einhvern tímann á lífsleiðinni. Eins er talið að þeim sem eru hávaxnir sé hættara við sjúkdómnum. Einnig geta miklar stöður haft áhrif til hins verra. Þá geta hormónalyf eins og pillan haft óæskileg áhrif. Bæði æðahnútar og æðaslit liggja í ættum. Ég mæli svo alltaf með teygjusokkum til að draga úr einkennum og hamla því að sjúkdómurinn versni.
Kveðja,
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu spurningu HÉR.