Funduðu með forsætisráðherra

Mótmælendur krefjast aðgerða í loftslagsmálum strax.
Mótmælendur krefjast aðgerða í loftslagsmálum strax. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skipu­leggj­end­ur lofts­lags­verk­falls­ins hér á landi funduðu í dag með Katrínu Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra í Stjórn­ar­ráðshús­inu. Á fund­in­um var farið yfir kröf­urn­ar sem liggja að baki verk­fall­inu sem eru fyrst og fremst aukn­ar og metnaðarfyllri aðgerðir strax og auk­in fjár­út­lát til lofts­lags­mála. 

Lofts­lags­verk­fall hef­ur nú staðið yfir hér á landi fimm föstu­daga í röð á milli klukk­an 12 og 13. Tölu­verður fjöldi fólks hef­ur sótt verk­fallið í öll skipt­in, að megn­inu til börn á grunn­skóla­aldri. Í al­heims­verk­fall­inu 15. mars söfnuðust rúm­lega 2.000 manns á Aust­ur­velli, Ak­ur­eyri og Akra­nesi og kröfðust auk­inna aðgerða.

Fram kem­ur í til­kynn­ingu að verk­falið muni halda áfram hvern ein­asta föstu­dag þar til raun­veru­leg­ur vilji til breyt­inga sjá­ist.

Full­trú­ar verk­falls­ins lögðu fram til­lög­ur við for­sæt­is­ráðherra að því hvernig væri unnt að upp­fylla hlut rík­is­stjórn­ar í því mark­miði að ná 2,5% af lands­fram­leiðslu í mála­flokk­inn sem og til­lög­ur að aðgerðum sem mætti inn­leiða til þess að leggja at­vinnu­líf­inu lín­urn­ar í lofts­lags­mál­um.

Fram kem­ur í til­kynn­ingu frá Lands­sam­tök­um ís­lenskra stúd­enta að Katrín hafi tekið vel í er­indið og gott sam­tal hafi átt sér stað um mögu­leika rík­is­stjórn­ar­inn­ar til að ná mark­miðunum og hvernig Ísland hafi tekið þátt í umræðum um lofts­lags­breyt­ing­ar á alþjóðavett­vangi.

Full­trú­ar verk­falls­ins bíða nú eft­ir fund­ar­boði frá Bjarna Bene­dikts­syni fjár­málaráðherra, en einnig er stefnt að fund­um með at­vinnu­lífi og sveit­ar­fé­lög­um.

mbl.is