„Mín mistök að átta mig ekki á áhættunni“

Nefndarmönnum var tíðrætt um ummæli sem Már lét falla í …
Nefndarmönnum var tíðrætt um ummæli sem Már lét falla í viðtali við Morgunblaðið 20. mars mbl.is/​Hari

Már Guðmunds­son seðlabanka­stjóri veit ekki bet­ur en að hann njóti trausts í starfi. Gjald­eyris­eft­ir­litið hafi ein­ung­is verið lít­ill hluti starf­semi bank­ans, og hafi raun­ar ekki verið hluti starf­semi hans þegar hann tók við sem seðlabanka­stjóri.

Már tel­ur það hafa verið mis­tök að færa mála­flokk­inn frá Fjár­mála­eft­ir­lit­inu og til Seðlabanka Íslands og seg­ir það hafa verið sín mis­tök að átta sig ekki á áhætt­unni sem í því fólst.

Þetta kom fram í máli Más á fundi stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar Alþing­is þar sem fjallað var um lög um gjald­eyr­is­mál og stjórn­sýslu Seðlabanka Íslands við fram­kvæmd gjald­eyris­eft­ir­lits.

Nefnd­ar­mönn­um var tíðrætt um um­mæli sem Már lét falla í viðtali við Morg­un­blaðið 20. mars um rök­studd­an grun bank­ans í máli Sam­herja þar sem hann sagði að ráðist hefði verið í hús­leit „vegna þess að við höfðum grun um refsi­verð brot. Ef sá grun­ur hefði verið nægj­an­lega rök­studd­ur þá hefðum við ekk­ert farið í hús­leit held­ur ein­fald­lega vísað mál­inu eða kært það beint til lög­reglu.“

Már sagði um­mæl­in á mis­skiln­ingi byggð. Bank­inn hefði haft rök­studd­an grun um brot og þar af leiðandi farið í hús­leit til þess að afla gagna. Hús­leit­in hefði getað leitt til kæru, en að í kjöl­far henn­ar hefði bank­inn ekki talið sig hafa nægi­lega rök­studd­an grun um meiri­hátt­ar brot til þess að hægt væri að kæra málið til lög­reglu.

Al­gengt að fjöl­miðlar væru viðstadd­ir hús­leit­ir

Hvað næstu skref varðar sagði Már að nú væri unnið að því að taka sam­an gögn frá sumr­inu 2014, sem varpa ljósi á sam­skipti bank­ans við önn­ur stjórn- og ákæru­völd, sem urðu til þess að bank­inn túlkaði það sem svo að hann hefði heim­ild til þess að leggja á refsi­heim­ild­ir. Þess­um gögn­um verði síðan skilað til for­sæt­is­ráðherra og stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar í næstu viku.

Aðspurður hvort þetta staðfesti að bank­inn hafi leynt gögn­um sagði Már svo ekki vera, enda væri ekki um op­in­ber gögn að ræða, held­ur væri af­hend­ing gagn­anna ein­ung­is til­raun til þess að varpa ljósi á og að kom­ast til botns í mál­inu.

Hvað aðkomu fjöl­miðla að mál­inu varðaði, en frétta- og mynda­töku­menn Rík­is­út­varps­ins voru komn­ir að skrif­stof­um Sam­herja bæði á Ak­ur­eyri og í Reykja­vík að morgni 27. mars árið 2012 þegar gjald­eyr­is­eft­ir­litið fram­kvæmdi hús­leit, sagði Már að lek­ar af þessu tagi hafi verið al­geng­ir á þess­um tíma og að fjöl­miðlar hefðu oft verið viðstadd­ir hús­leit­ir. Sem dæmi nefndi hann hús­leit sér­staks sak­sókn­ara hjá Sam­herja nokkr­um mánuðum áður.

mbl.is