Íslandsbanki mun hætta að gefa plast- og gjafavörur til barna- og unglinga á vormánuðum til að sporna við mengun og sóun. Þetta er liður í innleiðingu á fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna inn í stefnu bankans.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka.
Markmiðin eru aðgerðir í loftslagsmálum, jafnrétti kynjanna, menntun fyrir alla og nýsköpun. Nýr og umhverfisvænn Georgs sparibaukur mun líta dagsins ljós og leysa af hólmi plastbaukinn. Upphaflegu skilaboð Georgs voru tengd umhverfismálum og má búast við fleiri slíkum skilaboðum frá lukkudýri bankans.
„Það hefur enginn farið varhluta af umræðu um plastnotkun og áhrifum þess á umhverfið. Hjá okkur eru tugir þúsunda gjafavara og þar af mest plast. Þessi ákvörðun er í takt við nútímasamfélag þar sem fyrirtæki eiga að huga að umhverfismálum í rekstri sínum,“ er haft eftir Eddu Hermannsdóttur, markaðs- og samskiptastjóra Íslandsbanka í tilkynningu.
Við erum stolt af því að hafa innleitt heimsmarkmiðin í okkar daglegu störf og viljum við sýna það í verki. Íslandsbanki er stór vinnustaður í íslensku atvinnulífi og viljum við vera jákvætt hreyfiafl til góðra verka.“
Í stað gjafavöru verður enn meiri áhersla lögð á upplifun í útibúum og í gegnum stafrænar leiðir bankans. Georg og félagar er app sem hefur notið mikilla vinsælda og munu fleiri myndbönd með Georg bætast í hópinn.