Ragnheiður byrjaði ung að standa á skíðum og stunda útivist og þakkar foreldrum sínum það. „Foreldrar mínir hafa alla tíð verið mjög virk hvað varðar útivist og hreyfingu og voru dugleg að taka mig með út um allt. Ég byrjaði til dæmis að standa á skíðum áður en ég varð tveggja ára. Eftir menntaskóla fór ég í ár til Austurríkis að kenna á skíði og tók t.a.m. skíðakennararéttindi þar í landi. Það er skemmtilegasta starf sem ég hef unnið við. Það er ekkert betra en að vera úti allan daginn að gera eitthvað sem að maður elskar.“
Næst lá leiðin til Slóvakíu til að læra læknisfræði. Strax í upphafi fyrsta ársins í náminu byrjaði Ragnheiður að finna fyrir miklum verkjum í líkamanum og þá aðallega í hnénu. Við tók langt og erfitt greiningarferli í Slóvakíu þar sem hún gekk milli lækna ásamt því að fara í ótal rannsóknir. „Ég þekkti heilbrigðiskerfið í landinu lítið sem ekkert og á meðan þessu stóð var ég að fikra mig áfram á fyrsta ári í læknisfræði. Ég var ekki greind með gigt fyrr en ári eftir að ég fékk einkennin. Eftir annað árið í náminu var líkamleg og andleg heilsa komin í algjört þrot. Ég gat ekki orðið mætt í skólann eða tekið almennt þátt í því sem gerðist í lífinu. Þá tók ég ákvörðun um að taka mér hlé í náminu og fara heim til Íslands að sinna mínum sjúkdómi. Ég þakka fyrir að hafa verið það skynsöm að fara heim, vegna þess að á þessum tíma fannst mér algjör heimsendir að missa af mínum árgangi. Þegar maður er 23 ára á maður auðvitað alls ekki von á því að greinast með gigt eða annan langvinnan sjúkdóm sem hefur svona mikil áhrif á líf manns,“ segir Ragnheiður. Í kjölfarið varði hún þremur árum á Íslandi í einskonar endurhæfingu. „Ég var svo heppin að finna góðan gigtarlækni, sjúkraþjálfara og sálfræðing. Ég fékk loksins lyf sem að virkuðu fyrir mig, þroskaðist mikið og lærði betur inn á sjálfa mig. Ári eftir að ég var greind kom svo í ljós að þetta var psoriasis-gigt. Það þýðir að ónæmiskerfið ræðst á liðina sem veldur því að þeir bólgna, sem getur valdið krónískum verkjum, hreyfiskerðingu og almennt skertum lífsgæðum.“
Hreyfing hafði alltaf verið stór hluti af lífi Ragnheiðar og var greiningin því mikið áfall þar sem hreyfigeta hennar skertist verulega. „Ég breyttist úr virku íþróttastelpunni í manneskjuna sem gat ekki labbað út í búðina á horninu. Í upphafi langaði mig bara að gefast upp á öllu en það kviknaði eitthvað hjá mér þegar ég lenti hjá alveg frábærum sjúkraþjálfara, Sædísi, hjá Atlas endurhæfingu. Mig langaði alls ekki í gigtarumhverfið og ákvað því að leita til stofu sem sinnti íþróttamönnum. Ég tók þetta í hænuskrefum, byrjaði í jóga í vatni og hlaupum í vatni, sem mér fannst reyndar hundleiðinlegt en nauðsynlegt á sama tíma, ásamt því að synda og fara í þjálfun hjá sjúkraþjálfara.“
Þegar Ragnheiður var komin í ágætt líkamlegt form byrjaði hún að hjóla. „Það er örugglega ein af bestu ákvörðunum lífs míns. Hjólreiðarnar fóru vel með liðina, þeim fylgdu engin þung högg og ég réð ágætlega við álagið. Það var rosalega gott að komast út í ferska loftið og finna loksins íþrótt sem mér leið vel í. Fljótlega fór ég að taka þátt í keppnum og gekk mjög vel. Í dag hjóla ég á hverjum degi og eru margir af mínum bestu vinum að stunda sömu íþrótt,“ segir Ragnheiður, en hún er núna búsett í Danmörku þar sem hún starfar og stefnir að því að komast inn í háskóla. „Hér er auðvitað mikil hjólamenning, bílar taka tillit til hjólreiðamanna og hjólastígar úti um allt. Ég hjóla alltaf í um það bil 10-15 klukkustundir á viku og æfi fyrir komandi keppnistímabil. Það er mjög mikill félagsskapur í kringum hjólreiðar og hjóla ég með hjólreiðafélaginu Tindur þegar ég er á Íslandi og með dönskum hjólaklúbb þegar ég er í Danmörku. Ég er einnig í úrtakshópi landsliðsins í hjólreiðum hjá HRÍ, Hjólreiðasambandi Íslands.“
Segir hún hjólreiðarnar hafa haft jákvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu sína. „Ég veit hreinlega ekki hvað ég væri að gera ef ég hefði ekki hjólið. Sennilega sófakartafla sem væri búin að gefast upp á lífinu. Ef ég hreyfi mig ekki daglega þá virka ég einfaldlega ekki. Það má því segja að hreyfing sé mitt besta lyf við gigtinni. Ég held að ég geti fullyrt það að það líður öllum betur ef þeir stunda einhvers konar hreyfingu. Maður þarf bara að finna hverju maður hefur gaman af.“