Lætur af störfum hjá Síldarvinnslunni

Adolf Guðmundsson, fráfarandi rekstrarstjóri Síldarvinnslunnar.
Adolf Guðmundsson, fráfarandi rekstrarstjóri Síldarvinnslunnar. Ljósmynd/Ómar Bogason

Adolf Guðmundsson hefur látið af störfum sem rekstrarstjóri Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Tóku starfslokin gildi nú um mánaðamótin en Adolf var framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Gullbergs frá 1982 og þar til Síldarvinnslan festi kaup á félaginu árið 2015.

Rætt er við Adolf á vef Síldarvinnslunnar, þar sem hann bendir á að hann hafi komið til Seyðisfjarðar árið 1973, þá 19 ára að aldri.

„Þá hafði ég verið ráðinn til að þjálfa knattspyrnu og handknattleik hjá Hugin. Ég þjálfaði knattspyrnuna í tvö ár en handknattleikinn í 15 ár og lék með í allnokkurn tíma. Það var gaman að þjálfa og árangurinn hjá kvennaliði Hugins á þessum tíma er eftirminnilegur og eins hjá kvennaliði UÍA sem ég þjálfaði einnig. Ég byrjaði að starfa í frystihúsinu á Seyðisfirði árið 1974 og segja má að ég hafi verið viðloðandi húsið meira og minna frá þeim tíma,“ segir Adolf.

„Á Seyðisfirði kynntist ég konunni minni, Theodóru Ólafsdóttur, en hún er dóttir Ólafs Ólafssonar útgerðarmanns. Þannig tengdist ég útgerðinni og fiskvinnslunni á staðnum órjúfanlegum böndum.“

Kveður sáttur og glaður

Aðspurður segist hann finna fyrir söknuði, við brotthvarf af vettvangi sjávarútvegsins.

„Jú, vissulega er það söknuður, en allt fær sinn enda. Ég hef starfað hér á Seyðisfirði en einnig tekið þátt í félagsstarfi innan greinarinnar. Ég hef átt sæti í stjórnum Útvegsmannafélags Austfjarða, Samtaka fiskvinnslustöðva, Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins og þessar stjórnarsetur hafa fært mér mikið og ég bý að þeirri reynslu. Sérstaklega er eftirminnilegt að hafa gegnt stjórnarformennsku í Landssambandi íslenskra útvegsmanna um fimm ára skeið. Þá hef ég einnig tekið að mér ýmis önnur verk sem verið hafa gefandi. Það er gott að hafa komið víða við og öll þessi störf auka víðsýni manns.“

Starfsemin á Seyðisfirði hafi þá gengið vel eftir að Síldarvinnslan kom að henni.

„Hún hefur gengið vel og allt samstarf við Síldarvinnsluna hefur verið eins og best verður á kosið. Ég vil nota þetta tækifæri og senda kveðju til allra samstarfsmanna í gegnum tíðina og þakka fyrir liðin ár. Ég kveð sáttur og glaður og óska Síldarvinnslunni alls hins besta í framtíðinni.“

mbl.is