Lætur af störfum hjá Síldarvinnslunni

Adolf Guðmundsson, fráfarandi rekstrarstjóri Síldarvinnslunnar.
Adolf Guðmundsson, fráfarandi rekstrarstjóri Síldarvinnslunnar. Ljósmynd/Ómar Bogason

Ad­olf Guðmunds­son hef­ur látið af störf­um sem rekstr­ar­stjóri Síld­ar­vinnsl­unn­ar á Seyðis­firði. Tóku starfs­lok­in gildi nú um mánaðamót­in en Ad­olf var fram­kvæmda­stjóri út­gerðarfé­lags­ins Gull­bergs frá 1982 og þar til Síld­ar­vinnsl­an festi kaup á fé­lag­inu árið 2015.

Rætt er við Ad­olf á vef Síld­ar­vinnsl­unn­ar, þar sem hann bend­ir á að hann hafi komið til Seyðis­fjarðar árið 1973, þá 19 ára að aldri.

„Þá hafði ég verið ráðinn til að þjálfa knatt­spyrnu og hand­knatt­leik hjá Hug­in. Ég þjálfaði knatt­spyrn­una í tvö ár en hand­knatt­leik­inn í 15 ár og lék með í all­nokk­urn tíma. Það var gam­an að þjálfa og ár­ang­ur­inn hjá kvennaliði Hug­ins á þess­um tíma er eft­ir­minni­leg­ur og eins hjá kvennaliði UÍA sem ég þjálfaði einnig. Ég byrjaði að starfa í frysti­hús­inu á Seyðis­firði árið 1974 og segja má að ég hafi verið viðloðandi húsið meira og minna frá þeim tíma,“ seg­ir Ad­olf.

„Á Seyðis­firði kynnt­ist ég kon­unni minni, Theo­dóru Ólafs­dótt­ur, en hún er dótt­ir Ólafs Ólafs­son­ar út­gerðar­manns. Þannig tengd­ist ég út­gerðinni og fisk­vinnsl­unni á staðnum órjúf­an­leg­um bönd­um.“

Kveður sátt­ur og glaður

Aðspurður seg­ist hann finna fyr­ir söknuði, við brott­hvarf af vett­vangi sjáv­ar­út­vegs­ins.

„Jú, vissu­lega er það söknuður, en allt fær sinn enda. Ég hef starfað hér á Seyðis­firði en einnig tekið þátt í fé­lags­starfi inn­an grein­ar­inn­ar. Ég hef átt sæti í stjórn­um Útvegs­manna­fé­lags Aust­fjarða, Sam­taka fisk­vinnslu­stöðva, Lands­sam­bands ís­lenskra út­vegs­manna og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins og þess­ar stjórn­ar­set­ur hafa fært mér mikið og ég bý að þeirri reynslu. Sér­stak­lega er eft­ir­minni­legt að hafa gegnt stjórn­ar­for­mennsku í Lands­sam­bandi ís­lenskra út­vegs­manna um fimm ára skeið. Þá hef ég einnig tekið að mér ýmis önn­ur verk sem verið hafa gef­andi. Það er gott að hafa komið víða við og öll þessi störf auka víðsýni manns.“

Starf­sem­in á Seyðis­firði hafi þá gengið vel eft­ir að Síld­ar­vinnsl­an kom að henni.

„Hún hef­ur gengið vel og allt sam­starf við Síld­ar­vinnsl­una hef­ur verið eins og best verður á kosið. Ég vil nota þetta tæki­færi og senda kveðju til allra sam­starfs­manna í gegn­um tíðina og þakka fyr­ir liðin ár. Ég kveð sátt­ur og glaður og óska Síld­ar­vinnsl­unni alls hins besta í framtíðinni.“

mbl.is