Vona að Rómeó og Júlía fjölgi sér

00:00
00:00

Vatna­frosk­arn­ir Rómeó og Júlía tóku stórt skref í vik­unni þegar Júlía flutti inn í fiska­búr Rómeós. Vís­inda­menn binda mikl­ar von­ir við að frosk­arn­ir muni fjölga sér og bjarga þannig sehu­encas-vatna­froska­teg­und­inni frá út­rým­ingu.

Rómeó hafði verið maka­laus í um ára­tug, allt þar til Júlía fannst djúpt í iðrum frum­skóg­ar­ins í Bóli­víu í janú­ar. Til stóð að þeirra fyrsta stefnu­mót yrði á Valentínus­ar­dag­inn, en það frestaðist ör­lítið á meðan vís­inda­menn gengu úr skugga um að ekki stafaði sýk­ing­ar­hætta af Júlíu. Skæð sýk­ing hef­ur herjað á teg­und­ina og nán­ast út­rýmt henni.

Rómeó og Júlía hitt­ust fyrst 1. mars og hef­ur sam­bandið gengið eins og í sögu. „Rómeó hef­ur verið voða ljúf­ur við Júlíu, fylgt henni eft­ir í búr­inu og fórnað ormun­um sín­um í máltíðir fyr­ir hana,“ seg­ir Teresa Camacho Badani, for­stöðumaður skriðdýra­deild­ar Nátt­úru­m­inja­safns Bóli­víu.

Hún seg­ir að það sé ynd­is­legt að fylgj­ast með Rómeó í góðum fé­lags­skap eft­ir að hafa verið ein­sam­all svo árum skipt­ir. Nú á hins veg­ar eft­ir að koma í ljós hvort mök­un­ar­ferlið gangi eft­ir.

„Það er erfitt að segja til um hvað ger­ist næst því í raun vit­um við lítið um æxl­un þess­ar­ar teg­und­ar. Við gæt­um þurft að bíða í nokkra daga eða vik­ur en við það gæti líka eitt­hvað farið að ger­ast mjög fljót­lega,“ seg­ir Christoph­er Jor­d­an nátt­úru­vernd­arsinni.

Vísindamenn og dýraverndunarsinnar binda miklar vonir við að Rómeó (til …
Vís­inda­menn og dýra­vernd­un­ar­sinn­ar binda mikl­ar von­ir við að Rómeó (til hægri) og Júlía bjargi sehu­encas-vatna­froska­teg­und­inni frá út­rým­ingu. AFP
mbl.is