Fiskvinnslufyrirtækið Toppfiskur hefur verið úrskurðað gjaldþrota, samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra. Ljóst er að tugir manns hafa þar með misst vinnuna en meðalfjöldi starfa í fyrirtækinu á árunum 2016 og 2017 var 64 manns.
Tap af rekstri félagsins á árinu 2017 nam 280,1 milljón króna. Bókfært verð eigna í efnahagsreikningi nam 1.211,7 milljónum í árslok 2017 en bókfært eigið fé var neikvætt um 320,5 milljónir króna. Var því eiginfjárhlutfall félagsins neikvætt um 26,5% á þeim tímapunkti, samkvæmt tölum sem lesa má úr ársreikningi félagsins.
Fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota á föstudag.
Rakel Pálsdóttir kynningarstjóri Eflingar staðfestir í samtali við mbl.is að um fjörutíu starfsmenn Toppfisks hafi leitað aðstoðar stéttarfélagsins í kjölfar gjaldþrotsins.
Hluthafar félagsins samkvæmt síðustu upplýsingum voru fjórir; Jón Steinn Elíasson framkvæmdastjóri með 85% hlutafjár og Laufey Eyjólfsdóttir, Lovísa Guðbjörg Ásgeirsdóttir og Anna Marta Ásgeirsdóttir með 5% hver.
Fyrirtækið hefur verið til húsa að Fiskislóð 65 í Reykjavík en á vef þess segir að um sé að ræða fjölskyldufyrirtæki sem hafi yfir hundrað manns í vinnu.
Ekki hefur náðst samband við stjórnendur Toppfisks í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mbl.is.