Síldarvinnslan segir upp fjórum

Gunnþór segir að ekki sé von á miklu hráefni í …
Gunnþór segir að ekki sé von á miklu hráefni í júní og júlí. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Síldarvinnslan hf. hefur sagt upp fjórum starfsmönnum við löndun hjá útgerðinni í Neskaupstað. Þetta staðfestir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, í samtali við mbl.is, en uppsagnirnar voru tilkynntar starfsmönnum í síðustu viku.

Hann segir að ekki sé með beinum hætti verið að leggja niður störf, heldur sé um að ræða skipulagsbreytingar. Loðnubrestur og samdráttur í þjóðfélaginu hljóti að kalla á að farið sé ofan í kjölinn á öllum rekstri.

„Fyrirtækin í kringum okkur eru með verktaka í þessu. Við sögðum mönnum upp með þriggja mánaða fyrirvara og það er alveg ljóst að það er ekki mikið hráefni væntanlegt í júní og júlí. Meðal annars þess vegna er verið að ráðast í þessar skipulagsbreytingar. En það verður áfram landað úr skipunum.“

mbl.is