Fyrsti kostur breytt forgangsröðun ríkisútgjalda

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður starfshópsins, afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- …
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður starfshópsins, afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skýrsluna á kynningarfundi í dag. mbl.is/Eggert

Starfshópur um fjármögnun samgöngukerfisins telur fyrsta valkost í þeim efnum vera breytta forgangsröðun í ríkisútgjöldum en sú leið væri að mati hópsins hagkvæmari fyrir ríkið en aðrar, meðal annars vegna fjármagnskostnaðar.

Þetta kemur fram í skýrslu starfshópsins sem skilað var til Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, í dag. Leiðarljós í starfi starfshópsins var leita leiða til að flýta uppbyggingu brýnna samgöngumannvirkja í þágu umferðaröryggis. Starfshópurinn fór yfir stöðu vegaframkvæmda í vinnu sinni segir í fréttatilkynningu og leitaði fyrirmynda um fjármögnun í vegakerfinu hjá nágrannalöndum.

Valkostur númer tvö er sagður að stofna opinbert hlutafélag um framkvæmdir, lántökur og innheimtu veggjalda. Slík leið væri þó háð svigrúmi til lántöku og aukinna útgjalda í fjármálaáætlun. Starfshópurinn telur þó engar fjármögnunarleiðir fyrir hendi sem ekki eru háðar svigrúmi ríkisins nema framkvæmdir sem gætu hentað sem samvinnuverkefni. Slík verkefni henti vel í stórum og vel skipulögðum nýframkvæmdum en dæmi um slíkt sé Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga.

Vísað er til þess að Vegagerðin telji nauðsynlegt að fara í um 200 verkefni á næsta aldarfjórðungi sem áætlað sé að kosti yfir 400 milljarða króna. Þótt aukið fjármagn hafi komið til samgöngumála í gildandi fjármálaáætlun þurfi að finna leiðir til að fjármagna og forgangsraða framkvæmdum og flýta þeim eins og kostur sé.

„Starfshópurinn bar saman framkvæmdir með hliðsjón af umferðaröryggi, umferðarþunga og þjóðhagslegum ábata. Á þeim grunni tók hópurinn saman lista yfir níu mögulegar flýtiframkvæmdir utan höfuðborgarsvæðisins sem ráðgert er að kosti samtals um 40 milljarða króna á næstu sjö árum. Framkvæmdir innan höfuðborgarsvæðisins eru undanskildar en umræður um fjármögnun þeirra fara fram á sameiginlegum vettvangi ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu,“ segir ennfremur.

Þessi níu forgangsverkefni eru:

• Grindavíkurvegur – Bláalónsvegur-Grindavík
• Reykjanesbraut – Fitjar-Flugstöð
• Reykjanesbraut – Krýsuvíkurvegur-Hvassahraun
• Suðurlandsvegur – Biskupstungnabraut-Kambar
• Suðurlandsvegur – Fossvellir-Norðlingavað
• Suðurlandsvegur – Skeiðavegamót-Selfoss
• Suðurlandsvegur – Ölfusárbrú
• Vesturlandsvegur – Hvalfjarðargöng-Borgarnes
• Vesturlandsvegur – Þingvallavegur-Leirvogstunga og um Kjalarnes

mbl.is