Tæknin flýgur fram úr þorskinum

Úr vinnusal Hampiðjunnar, sem er eitt af stóru tæknifyrirtækjunum.
Úr vinnusal Hampiðjunnar, sem er eitt af stóru tæknifyrirtækjunum. mbl.is/Hari

Staða margra þeirra tæknifyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi hefur aldrei verið jafn sterk og nú. Þetta sýnir ný greining Íslenska sjávarklasans, sem gefin var út í vikunni.

Í greiningunni er bent á að tíu stærstu tæknifyrirtækin hafi aukið veltu sína umtalsvert á milli ára. Velta þeirra sem tengist sjávarútvegi og fiskeldi hafi þannig numið um 42 milljörðum króna á síðasta ári. Skýringar á því sé meðal annars að finna í sölu búnaðar og í samrunum við önnur fyrirtæki.

Velta annarra fyrirtækja í sama geira, sem samkvæmt athugun Sjávarklasans eru um 65 talsins, var þá um 40 milljarðar og óx um 7% á árinu 2018.

Því megi segja að síðasta ár sé það fyrsta í sögunni þar sem sala tæknibúnaðar og annars búnaðar frá íslenskum fyrirtækjum, sem mestmegnis er á erlenda markaði, sé meiri en sem nemur sölu á þorskflökum frá Íslandi.

„Fleiri tæknifyrirtæki eru að stækka umtalsvert og ná öflugri fótfestu á erlendum mörkuðum. Þrátt fyrir harða samkeppni hafa mörg minni fyrirtækin haldið vel sínum hlut og í sumum tilfellum vel það,“ segir í greiningu klasans.

Í fáum útflutningsgreinum hafi fyrirtæki nýtt jafn vel þau tækifæri sem felist í fjórðu iðnbyltingunni og þeirri sjálfvirknivæðingu sem hún hefur í för með sér. „Þá eru að koma fram ný tæknifyrirtæki, m.a. í rekjanleika, DNA-greiningum og umhverfisstjórnun sem enn bæta þá fjölbreyttu flóru tæknifyrirtækja sem starfrækt eru á þessu sviði hérlendis,“ segir í greiningunni.

Langstærst þessara fyrirtækja er Marel. Þar á eftir fylgja Skaginn 3X, Héðinn, Valka, Vaki, Curio, Naustmarine, Rafeyri og Samey. Samkvæmt niðurstöðum greiningarinnar eru þessi fyrirtæki samtals með tæplega 1.000 starfsmenn og starfa 80% þeirra á Íslandi.

Vakin er athygli á að stóru og meðalstóru tæknifyrirtækjunum hafi fjölgað. Þau hafi einnig haft mun meira svigrúm en þau minni til að markaðssetja þjónustu sína og vörur erlendis. Á síðastliðnum árum hafi það tekist afar vel.

Ítarlegri umfjöllun er að finna í ViðskiptaMogganum, sem fylgdi Morgunblaðinu á miðvikudag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: