Fyrirvarinn ekki í yfirlýsingunni

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

„Fyr­ir­var­inn bygg­ist á því að við erum ekki tengd raf­orku­markaði ESB og það myndi ein­göngu ger­ast ef sæ­streng­ur yrði lagður,“ sagði Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra á Alþingi í dag í umræðum um þriðja orkupakka Evr­ópu­sam­bands­ins.

Til stend­ur að fyrsta umræða um þriðja orkupakk­ann fari fram á Alþingi síðar í dag en greint var frá því á dög­un­um að Guðlaug­ur Þór og Migu­el Ari­as Ca­nete, fram­kvæmda­stjóra orku­mála í fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins, hefðu sent frá sér yf­ir­lýs­ingu þess efn­is að stór hluti ákvæða þriðju orkupakk­ans hefði ekki gildi eða neina raun­hæfa þýðingu fyr­ir Ísland á meðan eng­inn raf­orkusæ­streng­ur er til staðar.

„Svo­kölluð póli­tísk yf­ir­lýs­ing“

Til­efni um­mæla Guðlaugs Þórs var fyr­ir­spurn frá Ingu Sæ­land, for­manni Flokks fólks­ins, sem spurði út í yf­ir­lýs­ing­una og hvers eðlis hún væri og hvaða fyr­ir­var­ar fæl­ust í henni. Sagði ráðherr­ann að yf­ir­lýs­ing þeirra Ca­nete væri „svo­kölluð póli­tísk yf­ir­lýs­ing“ sem hann teldi gagn­lega í umræðunni. „Hún er hvorki meira né minna en það. Því hef­ur aldrei verið haldið fram á neinu stigi máls að hún sé neitt annað en ná­kvæm­lega það.“

Inga Sæ­land sagði að þar með væri það komið á hreint „að þetta var óform­legt sam­tal sem fel­ur í raun­inni ekki í sér neinn fyr­ir­vara, fa­ktískt. Það er í raun­inni eng­inn fyr­ir­vari sem við höf­um í hendi. Ekki neinn.“ Guðlaug­ur Þór sagði Ingu hafa mis­skilið eitt­hvað ef hún teldi að þeir fyr­ir­var­ar sem lagt hefði verið upp með fæl­ust í um­ræddri yf­ir­lýs­ingu. „Það hef­ur aldrei verið sagt.“ Með yf­ir­lýs­ing­unni væri aðeins áréttað það sem þegar fæl­ist í laga­gerðunum.

Gagn­rýndi af­skipti Norðmanna

„Það sem verið er að gera í meðför­um þings­ins,“ sagði Guðlaug­ur Þór, „ef áætlan­ir ná fram að ganga, er að herða á því að það sé ekki gert nema Alþingi komi að slíkri ákvörðun. Þannig væri ekki verið að gera nein­ar breyt­ing­ar á um­rædd­um laga­gerðum frá Evr­ópu­sam­band­inu held­ur ein­fald­lega að árétta efni þeirra.

Ráðherr­ann notaði enn­frem­ur tæki­færið og gagn­rýndi norska stjórn­mála­menn og full­trúa norskra sam­taka sem komið hefðu hingað til lands til þess að taka þátt í umræðunni um þriðja orkupakk­ann og sakaði þessa aðila um af­skipti af ís­lensk­um stjórn­mál­um og að etja fram full­yrðing­ar sem stæðust enga skoðun.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæ­land, formaður Flokks fólks­ins. mbl.is/​Hari
mbl.is

Bloggað um frétt­ina