Grásleppan flutt landshorna á milli

Tomas, Veronika og Unnur Ágústa við verkun á grásleppu hjá …
Tomas, Veronika og Unnur Ágústa við verkun á grásleppu hjá Drangi á Drangsnesi í gærmorgun. Ljósmynd/Óskar Torfason

Gott verð hefur fengist fyrir grásleppu á vertíðinni, en aflabrögð munu víða vera svipuð og tvö síðustu ár. Eftirspurn eftir grásleppu til vinnslu hefur verið mikil og fiskurinn keyrður landshorna á milli ef því hefur verið að skipta. Í vor hafa fersk hrogn verið flutt með flugi til Danmerkur.

Ágætur kraftur hefur verið í vertíðinni fyrir norðan og norðaustan land undanfarið og eru um 140 bátar byrjaðir veiðar, sem er lítils háttar fjölgun frá því í fyrra. Í heildina hefur afli glæðst frá fyrstu dögum vertíðar og veður orðið skaplegra. Veiðarnar eru bundnar sérleyfum til grásleppuveiða og má hver bátur róa í 44 daga samfellt frá því að hann leggur netin.

Um 40% verðhækkun

Til þessa hefur mestu verið landað á Drangsnesi, samkvæmt upplýsingum Landssambands smábátaeigenda. Þar eru komin á land um 118 tonn af þeim 952 tonnum sem búið er að landa. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, segir að meðalverð á kíló sem selt er í gegnum fiskmarkaðina hafi verið 288 krónur í vor. Það sé um 40% hækkun frá síðasta ári þegar meðalverðið var á sama tíma 206 krónur, en verðið hækkaði nokkuð er leið á vertíðina.

Óskar Torfason, framkvæmdastjóri Drangs á Drangsnesi, sagði að veiðar og vinnsla grásleppu gengju ljómandi þessa dagana. Nóg væri að gera, en alls eru 18 manns í vinnu hjá Drangi, þó ekki allir í fullu starfi. Það er stór hluti vinnandi fólks á Drangsnesi og nágrenni þar sem íbúar eru um 100. Síðustu daga hafa átta heimabátar landað á Drangsnesi, en að auki er afli tveggja báta frá Akranesi keyrður norður til verkunar hjá Drangi.

Eins og áður sagði er grásleppan í mörgum tilvikum keyrð um langan veg, en nánast allir landa heilli grásleppu. Þannig nefndi Óskar að grásleppa frá nágrönnum þeirra á Hólmavík færi til vinnslu í Búðardal og grásleppa sem landað væri á Ísafirði væri meðal annars unnin á Djúpavogi. Grásleppa frá Akranesi hefur meðal annars verið unnin á Vopnafirði í vor, þar sem er slæging og söltun á hrognum í húsakynnum HB Granda. Á Akranesi framleiðir Vignir Jónsson hf., dótturfyrirtæki HB Granda, kavíar úr hrognum alls staðar að af landinu, að því er fram kemur í umfjöllun um grásleppuveiðina í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: