„Loftslagsváin er þögul ógn“

Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, og Pétur Halldórsson, formaður …
Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, og Pétur Halldórsson, formaður Ungra umhverfissinna, voru viðstödd mótmælin en þau sjást hér í forgrunni myndarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Ní­unda lofts­lags­verk­fallið var haldið á Aust­ur­velli í Reykja­vík í dag. Hingað til hafa verk­föll­in verið mjög kraft­mik­il en í dag var ákveðið að verk­fallið yrði þögult og sitj­andi vegna föstu­dags­ins langa. Elsa María Guðlaugs Drífu­dótt­ir, formaður Lands­sam­taka ís­lenskra stúd­enta, seg­ir að það hafi verið viðeig­andi. 

„Lofts­lags­vá­in er þögul ógn og hef­ur læðst upp að manni þannig að nálg­ast þetta svona á þögl­an máta er tákn­rænt fyr­ir það sem við stönd­um frammi fyr­ir. Það var mjög góð stemmn­ing og mik­ill sam­hug­ur á staðnum svo þetta var ágæt­is til­breyt­ing.“

Áhrif verk­fall­anna sýni­leg

Nú hafa verk­föll­in verið haldið níu föstu­daga í röð og seg­ir Elsa að þau hafi skilað ár­angri þrátt fyr­ir að enn megi gera um­tals­vert bet­ur. „Við höf­um nú þegar fundað með um­hverf­is­ráðherra og for­sæt­is­ráðherra og eig­um fund með fjár­málaráðherra í maí líka. Þau hafa hlustað á okk­ur og tekið mjög vel í það sem við höf­um lagt fram á borðið en auðvitað vilj­um við enn þá meira og bet­ur má en duga skal.“

 „Það þarf að gera meira og gera það hraðar

Elsa bæt­ir því við að það þurfi að grípa til rót­tækra aðgerða eins fljótt og hægt er. „Það þarf að gera meira og gera það hraðar. Það er ótrú­lega gott að sjá svona viðleitni frá stjórn­völd­um. Þá má nátt­úru­lega túlka þetta sem svo að við erum að hvetja þau til dáða og við erum að biðja þau um að gera enn þá meira en þau eru að gera núna.“

Til þessa hafa aðallega ung­menni á skóla­aldri tekið þátt í mót­mæl­un­um. „Þetta er fyrst og fremst skóla­fólk en það mátti al­veg sjá að það voru fleiri kyn­slóðir á staðnum í dag held­ur en hef­ur verið síðustu vik­ur. Við höf­um verið að vekja at­hygli á því að það vant­ar stuðning frá eldri kyn­slóðum í þetta.“

Skil­ur rót­tæk mót­mæli í Lund­ún­um

Í Lund­ún­um mót­mæl­ir ungt fólk nú aðgerðarleysi í lofts­lags­mál­um og hef­ur hóp­ur­inn meðal ann­ars beint sjón­um sín­um að Heathrow flug­velli og truflað sam­göng­ur. Aðspurð seg­ist Elsa skilja þess­ar aðgerðir vel. 

„Þau mót­mæli eru mun ákveðnari og ég skil þau ótrú­lega vel. Ég veit að það er áhugi fyr­ir sam­bæri­legu hér á landi. Við höf­um samt ekki verið í því í lofts­lags­verk­fall­inu sjálfu, við höld­um okk­ur við skóla­verk­föll­in en það er áhuga­vert að sjá hvernig verður tekið í þetta hér á landi vegna það er mjög al­var­legt ástand í lofts­lags­mál­um og ég skil vel að fólk vilji grípa til auk­inna aðgerða.“

Elsa seg­ir áfram­hald­andi verk­föll framund­an. „Við mun­um halda áfram. Í næstu viku verður tí­unda lofts­lags­verk­fallið hér á landi.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina