Vestmannaey sjósett í Noregi

Vestmannaey flaut kl. 10:54 að norskum tíma í gærdag.
Vestmannaey flaut kl. 10:54 að norskum tíma í gærdag. Ljósmynd/Guðmundur Alfreðsson

Nýtt skip útgerðarinnar Bergs-Hugins, Vestmannaey, var sjósett hjá skipasmíðastöðinni Vard í Aukra í Noregi í gærmorgun. Þetta kemur fram í frétt á vef Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað, sem er móðurfélag útgerðarinnar.

Sjósetningin átti sér stað með nokkuð óvenjulegum hætti, samkvæmt því sem haft er eftir Guðmundi Alfreðssyni útgerðarstjóra á vef SVN.

„Skipið var dregið út úr húsi í gær og því síðan komið fyrir á pramma. Pramminn var síðan dregin út á flóa og þar er honum sökkt undan skipinu þar til það flýtur. Byrjað var að dæla sjó í prammann klukkan fimm í morgun og Vestmannaey flaut akkúrat klukkan 10.54 þannig að þetta tók töluverðan tíma. Skipið er glæsilegt á floti og allir afar ánægðir með vel unnið verk,“ sagði Guðmundur.

Samkvæmt honum er ráðgert að vélar skipsins verði gangsettar 5. eða 7. maí. „Hinn 6. maí er mánudagur og það kemur ekki til greina að gangsetja vélarnar á mánudegi,“ sagði Guðmundur, en ráðgert er að að afhending skipsins fari fram 2. júlí.

mbl.is