Plokkuðu 10 tonn af rusli

Einhver hundruð sjálfboðaliða tóku þátt í Stóra plokkdeginum í ár.
Einhver hundruð sjálfboðaliða tóku þátt í Stóra plokkdeginum í ár. mbl.is/Árni Sæberg

Skipuleggjendur Stóra plokkdagsins sem haldinn var á sunnudag gera ráð fyrir því að um það bil 10 tonn af rusli hafi verið fjarlægð af svæði sem nemur rúmlega 17 ferkílómetrum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsvarsmönnum plokkara. „Á sunnudag var máttur hinna mörgu að verki. Einhver hundruð sjálfboðaliða tóku á því um allt land og mörg hundruð pokar af sorpi fóru í vistun á viðeigandi stofnun.“

Í tilkynningunni segir að á þriðjudaginn hafi um 900 pokar af rusli hafi verið taldir í gegn um Facebook-síðuna Plokk á Íslandi og að meðalþyngd stórra poka sé átta kíló, en að hafa beri í huga að einungis sé um að ræða tölur sem bárust í gegn um síðuna. „Leiða má líkur að því að helmingi meira sé enn ótilkynnt og gera skipuleggjendur því ráð fyrir því um það bil 1500 pokar hafi verið fjarlægðir eða um það bil 10 tonn.“

Plokkuðu svæði á stærð við Vestmannaeyjar

„Samkvæmt talningu plokkari.is hreinsuðu plokkarar svæði sem nemur u.þ.b 17,32 km2 en til viðmiðunar er flatarmál Vestmannaeyja 17 km2. Það mætti því segja að plokkarar landsins hafi hreinsað hvern ferkílómeter Vestmannaeyja og rúmlega það.“

Ruslið sem safnaðist var að mestu úr þremur flokkum: byggingarplast og annað plast frá framkvæmdasvæðum, rusl og pappi sem fokið hefur frá illa umbúnum ruslatunnum og gámum einstaklinga og fyrirtækja, og loks plaströr og einnota drykkjarílát.

Um 900 pokar af rusli voru taldir í gegn um …
Um 900 pokar af rusli voru taldir í gegn um Facebook-síðuna Plokk á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

„Verstu svæðin í borginni eru þó tilfinnanlega á svæðinu í kringum losunarstöðvar Sorpu. Þar er vandinn þrennskonar; rusl sem komið er með til afhendingar fýkur af vögnum og pöllum, rusl sem losað er utan girðingar utan opnunartíma eða annarra ástæðna og svo rusl sem fýkur í burt af athafnasvæði fyrirtækisins.“

Segir í tilkynningunni að allt séu þetta sorpsprettur sem hæglega sé hægt að koma í veg fyrir „ef ekki væri fyrir sorpblindu almennings og stjórnenda.“



 

mbl.is