„Við viljum hvetja heilbrigðiseftirlit til þess að nota allt það vald sem þeim er gefið í lögunum til þess að fara á eftir þeim sem eru umhverfissóðar. Ég held þeir fái alltof mikið umburðarlyndi,“ segir Einar Bárðarson í samtali við mbl.is.
Hann er einn forsvarsmanna plokkara á Íslandi sem sendu út fréttatilkynningu í kjölfar Stóra plokkdagsins á sunnudag þar sem skorað er á heilbrigðiseftirlit landsins að taka upp óumburðarlyndi gagnvart lóðareigendum og framkvæmdaaðilum sem ekki sýna umhverfinu virðingu.
Aðspurður hvor honum þyki ekki nóg hart tekið á umhverfissóðum segist Einar ekki vilja fullyrða neitt. „En þetta getur ekki átt að vera svona. Ef það þarf einhvern skýrari lagaramma þá eru lögin mannanna verk og það þarf að endurskoða þau.“
Í tilkynningu eru eigendur Sorpu, sveitarfélögin, hvött til að taka ábyrgari afstöðu og fara í markvissar og sýnilegar aðgerðir til betrunar.
„Það er gríðarlegt magn af rusli í kring um starfsstöðvar Sorpu. Það er alls ekki svoleiðis að það sé allt þeim að kenna. Þetta er mikið til sorp sem fellur af vögnum og bílum og sorp sem skilið er eftir fyrir utan girðingu utan opnunartíma. Það er ekki hægt að búast við því að slóðar sem henda drasli þar komi og fari með það inn seinna, það verður bara að fara að sækja það þó það sé ekki inni í neinum rekstraráætlunum þá getum við ekki látið sorp falla á milli bíls og girðingar.“
Einar segir óbundnar sorptunnur einnig stóran hluta af vandamálinu, og þar geti hinn almenni borgari gripið inn í og tryggt sínar sorptunnur.
„Það þarf ekkert að stofna neina vinnuhópa eða samstarfsvettvang. Þetta er bara svona, það er búið að fara í gegn um þetta allt saman og það er búið að greina ruslið,“ segir Einar.
„Ég held að þeir bæjarstjórar og þeir ráðamenn sem tóku þátt í þessu um helgina geti alveg staðfest að þetta er ruslið, þetta er ekki eitthvað sem er þarna af einhverjum alveg óskiljanlegum ástæðum.“