Bandarískur kafari og ævintýramaður setti nýverið met í djúpköfun um borð í kafbáti þegar hann kafaði niður á ellefu kílómetra dýpi. Þar beið hans hins vegar ófögur sjón: Plastpoki og sælgætisbréf.
Victor Vescovo varði um fjórum tímum á mesta dýpi hafsins, við Mariana-skurð í Kyrrahafi, og sigldi um hafsbotninn í sérútbúnum kafbát. Á vegi hans urðu áhugaverð sjávardýr en einnig blasti við honum ófögur sjón þegar hann sigldi fram á plastpoka og umbúðir af sælgæti.
Þetta er í þriðja sinn sem mannaður kafbátur kemst jafn djúpt niður fyrir sjávarmál. Bandaríski sjóliðsforinginn Don Walsh og svissneski verkfræðingurinn Jacques Piccard voru þeir fyrstu til að ná að kafa niður á tæpa 11 kílómetra (7 mílna) dýpi árið 1960 en það var ekki fyrr en 2012 sem tókst að endurtaka leikinn og var þar kvikmyndaleikstjórinn James Cameron að verki á skærgræna kafbátnum sínum.
Vescovo kafaði ellefu metrum betur en Cameron, alls 10.928 metra, og setti því nýtt met. Vescovo fór alls fimm ferðir niður á hafsbotn í leiðangri sínum. Ferðin sem þurfti til að slá metið tók alls 12 klukkustundir. „Það er nánast óútskýranlegt hversu spennt við erum yfir afrekinu sem við náðum rétt í þessu,“ sagði Vescovo eftir að metið var slegið.
Í myndskeiðinu hér að neðan má sjá þegar fagnaðarlæti brutust út meðal skipuleggjenda leiðangursins þegar kafbáturinn lenti á hafsbotni.
Leiðangursteymið fullyrðir að á hafsbotni hafi þau uppgötvað fjórar nýjar tegundir af krabbadýrum í líkingu við marflær.
Leiðangurinn sýndi einnig svart á hvítu þau áhrif sem mennirnir hafa á jörðina og vistkerfi hennar, líkt og plastpokinn og sælgætisbréfin sanna.
Í niðurstöðum nýrrar skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna segir til að mynda að okkar kynslóðir, náttúrulíf og komandi kynslóðir séu í hættu nema gripið verði til knýjandi aðgerða til að koma megi í veg fyrir að plöntur, skordýr og aðrar verur sem mannkyn reiðir sig á til matar, til frjóvgunar og fyrir hreint vatn og stöðugt loftslag verðu útdauðar.
Í skýrslunni segir jafnframt að vistkerfum jarðar hraki nú hraðar en dæmi eru um.