Pompeo í óvæntri heimsókn í Brussel

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er mættur til Brussel til að …
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er mættur til Brussel til að ræða við utanríkisráðherra Bretlands, Frakklands og Þýskalands um kjarnorkusamkomulagið við Íran. AFP

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er kominn til Brussel þar sem hann mun funda með utanríkisráðherrum Bretlands, Frakklands og Þýskalands, Evrópuríkjanna sem eiga aðild að kjarnorkusamkomulaginu við Íran, sem verður umræðuefni fundarins.  

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, kallaði eftir „friðsælli tímum“ við komuna til Brussel í dag.

Ár er síðan Don­ald Trump, for­seti Banda­ríkj­anna, til­kynnti um að Banda­rík­in myndu ekki leng­ur styðja sam­komu­lagið, sem undirritað var árið 2015 og fel­ur í sér að dregið er úr refsiaðgerðum gegn Íran gegn því að þarlend stjórn­völd hætti til­raun­um til þess að koma sér upp kjarna­vopn­um tíma­bundið. Í nóv­em­ber til­kynntu Banda­rík­in að fyrri refsiaðgerðir gagn­vart Íran tækju gildi að nýju.

Í síðustu viku greindi klerka­stjórn­in í Íran frá því að hún hygðist hætta að virða sum ákvæði kjarn­orku­samn­ings lands­ins við Banda­rík­in og fimm önn­ur lönd frá ár­inu 2015 þar til Evr­ópu­lönd fyndu leið til að sneiða hjá viðskipta­banni Banda­ríkja­stjórn­ar á Íran. Ekki sé leng­ur ástæða til þess að fylgja sam­komu­lag­inu vegna þess að banda­rísk yf­ir­völd ákváðu að draga sig út úr sam­komu­lag­inu.

Um helgina sendu bandarísk stjórnvöld Pat­riot-eld­flauga­varn­ar­kerfi til Mið-Aust­ur­landa vegna auk­inn­ar spennu sem rík­ir vegna Írans. Þá mun banda­ríska her­skipið USS Arlingt­on taka sér viðbragðsstöðu við hlið USS Abra­ham Lincoln í Persa­flóa.

Utanríkisráðherra Breta, Hunt, segir mestu máli skipta að koma í veg fyrir að Íran hefji auðgun úrans að nýju. „Ef Íran verður kjarnorkuveldi eru nágrannar þess líklegir til að feta í fótspor ríkisins,“ segir Hunt.

Frederica Mogherini, æðsti yfirmaður utanríkis- og öryggismála Evrópusambandsins, segir að sambandið muni styðja kjarnorkusamkomulagið áfram að fullu. Mogherini virtist ekki alls kostar ánægð með frekar óvænta heimsókn Pompeo, sem er í raun að „trufla“ fund allra 28 utanríkisráðherra aðildarríkjanna. „Við verðum hér í allan dag og það er margt á dagskránni. Við sjáum til hvort og hvernig við náum að koma á fundi [með Pompeo],“ sagði Mogherini við fjölmiðla í morgun.  

Dagskrá Pom­peo hefur riðlast nokkuð vegna stöðunnar í Íran og fyrir helgi ákvað hann að hætta við heimsókn til Grænlands og vísaði til ann­rík­is í Washingt­on þegar til­kynnt var um að ekk­ert yrði af heim­sókn­inni. Þetta er önn­ur heim­sókn­in sem hann af­lýs­ir á einni viku en hann hætti einnig við heim­sókn til Þýska­lands.

mbl.is