Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er kominn til Brussel þar sem hann mun funda með utanríkisráðherrum Bretlands, Frakklands og Þýskalands, Evrópuríkjanna sem eiga aðild að kjarnorkusamkomulaginu við Íran, sem verður umræðuefni fundarins.
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, kallaði eftir „friðsælli tímum“ við komuna til Brussel í dag.
Ár er síðan Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um að Bandaríkin myndu ekki lengur styðja samkomulagið, sem undirritað var árið 2015 og felur í sér að dregið er úr refsiaðgerðum gegn Íran gegn því að þarlend stjórnvöld hætti tilraunum til þess að koma sér upp kjarnavopnum tímabundið. Í nóvember tilkynntu Bandaríkin að fyrri refsiaðgerðir gagnvart Íran tækju gildi að nýju.
Í síðustu viku greindi klerkastjórnin í Íran frá því að hún hygðist hætta að virða sum ákvæði kjarnorkusamnings landsins við Bandaríkin og fimm önnur lönd frá árinu 2015 þar til Evrópulönd fyndu leið til að sneiða hjá viðskiptabanni Bandaríkjastjórnar á Íran. Ekki sé lengur ástæða til þess að fylgja samkomulaginu vegna þess að bandarísk yfirvöld ákváðu að draga sig út úr samkomulaginu.
Um helgina sendu bandarísk stjórnvöld Patriot-eldflaugavarnarkerfi til Mið-Austurlanda vegna aukinnar spennu sem ríkir vegna Írans. Þá mun bandaríska herskipið USS Arlington taka sér viðbragðsstöðu við hlið USS Abraham Lincoln í Persaflóa.
Utanríkisráðherra Breta, Hunt, segir mestu máli skipta að koma í veg fyrir að Íran hefji auðgun úrans að nýju. „Ef Íran verður kjarnorkuveldi eru nágrannar þess líklegir til að feta í fótspor ríkisins,“ segir Hunt.
Frederica Mogherini, æðsti yfirmaður utanríkis- og öryggismála Evrópusambandsins, segir að sambandið muni styðja kjarnorkusamkomulagið áfram að fullu. Mogherini virtist ekki alls kostar ánægð með frekar óvænta heimsókn Pompeo, sem er í raun að „trufla“ fund allra 28 utanríkisráðherra aðildarríkjanna. „Við verðum hér í allan dag og það er margt á dagskránni. Við sjáum til hvort og hvernig við náum að koma á fundi [með Pompeo],“ sagði Mogherini við fjölmiðla í morgun.
Dagskrá Pompeo hefur riðlast nokkuð vegna stöðunnar í Íran og fyrir helgi ákvað hann að hætta við heimsókn til Grænlands og vísaði til annríkis í Washington þegar tilkynnt var um að ekkert yrði af heimsókninni. Þetta er önnur heimsóknin sem hann aflýsir á einni viku en hann hætti einnig við heimsókn til Þýskalands.