Siðanefnd New York-lögreglunnar hóf í gær að rétta í máli lögreglumanns sem tók 43 ára bandarískan karlmann hengingartaki á gangstétt í New York í júlí árið 2014 með þeim afleiðingum að maðurinn, Eric Garner, lést.
Garner, sem var óvopnaður hafði deilt við lögreglumenn sem sökuðu hann um að selja ólöglegar sígarettur.
„Ég get ekki andað! Ég get ekki andað“ heyrist Garner segja þegar fimm lögreglumenn reyndu að koma á hann handjárnum. Atburðurinn var tekinn upp á myndband og má sjá þegar lögreglumaðurinn Daniel Pantaleo tekur Garner svonefndu hengingartaki eftir rifrildi þeirra og hvernig Garner berst fyrir lífi sínu.
Réttarmeinafræðingur úrskurðaði að Garner hefði verið myrtur og varð dauði hans kveikjan að Black Lives Matter-hreyfingunni, sem hefur fordæmt ofbeldi lögreglu gegn svörtum körlum.
Fjöldi rannsókna á málum þar sem bandarískir lögreglumenn hafa verið sakaðir um beita óhóflegri hörku gegn svörtum og fyrir að vera of snöggir að skjóta fylgdi í kjölfarið.
Rannsókn á máli Garners hófst skömmu eftir lát hans og var tilkynnt í desember sama ár að lögreglumaðurinn yrði ekki ákærður. Þúsundir mótmæltu þessari ákvörðun og það er ekki fyrr en nú sem siðanefnd New York-lögreglunnar réttar í máli Pantaleo. Segir AFP lögregluyfirvöld hafa gefið þá skýringu á þessari löngu töf að beðið væri niðurstöðu rannsóknar mannréttindanefndar alríkisyfirvalda. Þeirri rannsókn er enn ekki lokið.
„Þetta eru orðin fimm ár. Fimm ár sem við höfum verið í framvarðalínunni að krefjast þess að réttlæti nái fram að ganga og þeir eru enn að reyna að sópa þessu undir teppið,“ sagði Gwen Carr, móðir Garners, þegar lögreglumenn Pantaleos reyndu að fá málinu vísað frá.
Þó að Pantaleo hafi undanfarin ár eingöngu fengið að sinna skrifstofustörfum er hann enn í New York-lögreglunni. Tugir mótmælenda söfnuðust saman við höfuðstöðvar lögreglunnar þegar réttarhöldin hófust og kröfðust þess að Pantaleo yrði rekinn, en það er harðasta möguleg refsing í máli hans.
„Við höfum öll séð myndbandið. Við höfum öll séð þegar hann er myrtur [...] og þeir eru enn að reyna að spila með okkur.“
Réttarhöldum aganefndarinnar er ætlað að ákvarða hvort að Pantaleo hafi í raun tekið Garner hálstaki, en slíkt hefur lögreglu borgarinnar verið bannað að gera allt frá 1993.
„Strax í byrjun tók hann í hálsinn,“ segir Jonathan Fogel, sem fer með málið fyrir hönd óháðrar kærunefndar sem rannsakar kærur gegn lögreglu.
Í myndbandinu sést Pantaleo halda framhandlegg sínum upp við háls Garners í rúmar 15 sekúndur og á einum tímapunkti spennir hann greipar saman til að halda takinu.
„Þetta var með vilja gert,“ segir Fogel og hvetur til þess að Pantaleo verði gerður ábyrgur gjörða sinna.
Lögfræðingur Pantaleos fullyrðir hins vegar að hann hafi bara verið að sinna starfi sínu og að niðurstaðan hefði orðið sú sama þó hann hefði ekki snert háls Garners. Garner hafi þegar verið við slæma heilsu, hann hafi verið of feitur og hafi þjáðst af astma. Aukinheldur hafi það ekki verið fyrr en eftir Pantaleo sleppti takinu sem Garner hafi byrjað að kvarta yfir að hann næði ekki andanum.
Fjölskylda Garners hefur þegar fengið greiddar bætur frá borgaryfirvöldum í New York, sem féllust á að greiða 5,9 milljónir dollara í skaðabætur árið 2015.
Búist er við að úrskurður siðanefndarinnar liggi fyrir 24. maí.